Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar. Ráðningar og pöntunarsími 862-1403 netfang frjo@simnet.is |
|
Færslur: 2016 Október16.10.2016 19:03Nýr diskur Austfirskir staksteinar 3Setjum hér inn þann pistil sem fylgir með í nýja albúminu með "Austfirskum staksteinum 3" Þarna má sjá ýmsar upplýsingar um útgáfuna. Diskurinn er væntanlegur í næstu viku. Ef þið hafið áhuga á diskinum er einfaldast að senda tölvupóst á frjo@simnet.is, einnig á Facebook eða í síma 862-1403 Friðjón. Vekjum einnig athygli á því að tvöfaldi safndiskurinn okkar er einnig kominn í þriðju útgáfu og tilbúinn til afhendingar. Fylgt úr hlaði. Þá er enn og aftur komið að því að við í Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar látum til skarar skríða og gefum nú út 16 lög eftir 17 austfirska laga og textahöfunda. Hljómsveitin er stofnuð á Egilsstöðum haustið 1995 og hefur starfað óslitið síðan þá. Meðlimir sveitarinnar eru þeir sömu frá upphafi, Árni Jóhann Óðinsson, gítar og söngur, Friðjón Ingi Jóhannsson, bassi og söngur og Daníel Friðjónsson, trommur, en á útgáfunum okkar spilar hann einnig á hljómborð og klarinettur. Útgáfuna köllum við "Austfirska staksteina 3", enda
höldum við hér áfram þeirri viðleitni okkar að varðveita dans- og dægurlög
eftir hina ýmsu höfunda sem flestir tengjast Austurlandi á einn eða annan hátt.
Þessa útgáfustarfsemi hefur hljómsveitin unnið að til
hliðar við hefðbundinn hljómsveitarrekstur allt frá stofnun, en í okkar huga
eru höfundarnir og varðveisluhugsjónin aðal málið í þessu verkefni. Fyrsti diskurinn kom út árið 1996 og bar hann nafnið
"Austfirskir staksteinar". Á þeim diski voru 13 lög eftir 19 austfirska laga og
textahöfunda. Árið eftir eða 1997 fór hljómsveitin í það verkefni að taka upp
19 lög eftir hinn góðkunna lagahöfund frá Fáskrúðsfirði, Óðinn G. Þórarinsson.
Hlaut sá diskur nafnið "Við tónanna klið". Síðan varð nokkuð hlé á útgáfum, en
árið 2000 kom hljómsveitin töluvert að útgáfu Magnúsar Bjarna Helgasonar frá
Borgarfirði eystra, á diskinum "Fjörðurinn okkar" sem hefur að geyma lög og
texta eftir heimamenn á Borgarfirði. Það er síðan árið 2003 sem hljómsveitin
gefur út diskinn "Austfirska staksteina 2", sem inniheldur 15 lög eftir 17 laga
og textahöfunda. Allir þessir diskar eru nú algelega ófáanlegir og var því
brugðið á það ráð árið 2006 að gefa út tvöfaldan safndisk með öllum þeim
íslensku lögum sem hljómsveitin hafði gefið út frá byrjun og flutu nokkur lög
með á þann disk sem ekki höfðu komið út áður. Sú útgáfa ber nafnið "44 íslensk
alþýðu dans og- dægurlög" og inniheldur eins og nafnið segir til um, 44 lög
eftir alls 42 laga og textahöfunda. Nú þegar þessi diskur er kominn út eru þau
íslensku lög sem við í Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar höfum tekið upp og
gefið út, orðin 60 talsins og laga og textahöfundar eru nú alls orðnir 51. Til að svona útgáfa verði að veruleika þarf að tvinna
saman marga ólíka þræði og viljum við í hljómsveitinni þakka sérstaklega þeim
höfundum sem treyst hafa okkur fyrir verkum sínum, en samskipti við þá hafa
verið í alla staði afskaplega ánægjuleg. Þá viljum við færa Brynleifi Hallssyni á Akureyri
sérstakar þakkir, en hann hefur séð um upptökur og alla hljóðvinnslu á þessari útgáfu,
en án hans hefði þessi útgáfa ekki orðið að veruleika, en hann sá einnig um
alla hljóðvinnslu á safndiskinum okkar. Brynleifur spilar einnig hljómborð og
gítar í nokkrum lögum. Við höfum einnig fengið góða gesti í hljóðfæraleikinn með
okkur og þökkum við þeim Valmari Väljaots sem lagði til snilli sína í 8 lög á
harmoniku, orgel, píanó og fiðlu, Einari Braga Bragasyni fyrir hans magnaða saxa og þverflautuleik í 4 lögum,
Rut Berg Guðmundsdóttir sem lagði til sína snilli á harmonikuna í þrem lögum,
Hafdísi Þorbjörnsdóttir og Helgu Jónu Óðinsdóttir, en þær lögðu til raddir
sínar í sitt hvort lagið, Birni Þórarinssyni sem spilar á píanó í einu lagi og
Árna Katli Friðrikssyni sem spilar á trommur í
einu lagi. Þá eru á diskinum tvö lög eftir Sigþrúði Sigurðardóttur sem
undirritaður söng á sínum tíma inn á útgáfu hennar "Undir regnboga" árið
2011, en þar sá hinn snjalli
tónlistarmaður á Egilsstöðum Hafþór Valur Guðjónsson um nánast allan undirleik
og upptökur. Einnig spilar Ármann Einarsson á harmóníku í öðru laginu. Færum
við þeim bestu þakkir fyrir góðfúslegt leyfi til að fá þessi ágætu lög á
útgáfuna. Um leið og við þökkum fyrir frábærar viðtökur um allt
land við fyrri útgáfum , það er von
okkar að þú lesandi og kaupandi góður hafir nokkra ánægju af þessari útgáfu. Kærar
þakkir! Fyrir hönd
Danshljómsveitar Friðjóns Jóhannssonar Friðjón Ingi
Jóhannsson sími 862-1403 netfang frjo@simnet.is
Flettingar í dag: 31 Gestir í dag: 13 Flettingar í gær: 10 Gestir í gær: 7 Samtals flettingar: 122998 Samtals gestir: 44425 Tölur uppfærðar: 2.3.2021 17:08:17 |
Eldra efni Tenglar |
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is