Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar. Ráðningar og pöntunarsími 862-1403 netfang frjo@simnet.is

44 íslensk alþýðu dans - og dægurlög

Fylgt úr hlaði.

Hér er á ferðinni safnútgáfa með íslenskum alþýðu dans og dægurlögum sem Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar hefur safnað saman og gefið út á árabilinu 1996-2006. Útgáfa þessa safndisks var ákveðin í samvinnu við úgáfu- og dreyfingarfyrirtækið Músik ehf, þegar til stóð að endurútgefa fyrri diska sem nú eru algerlega ófáanlegir, þ.e. tveir fyrstu diskarnir ?Austfirskir staksteinar? (1996) með efni 19 laga og textahöfunda. Og ?Við tónanna klið? (1997) sem hefur að geyma 19 lög Óðins G. Þórarinssonar frá Fáskrúðsfirði. Báðir þessir diskar voru teknir upp í Stúdío Risi á Neskaupstað þar sem upptökumaður var Hafsteinn M. Þórðarson, en Einar Bragi Bragason hinn góðkunni tónlistarmaður sá um upptökustjórn og aðstoðaði einnig við útsetningar og hljóðfæraleik. Þá er á þrotum diskurinn ?Austfirskir staksteinar 2?(2003) sem inniheldur efni17 laga og textahöfunda. Á þeim diski sá Brynleifur Hallsson á Akureyri um upptökur og aðstoð við útsetningar ásamt hljóðfæraleik.

Þá kom hljómsveitin að því að spila inn á diskinn ?Fjörðurinn okkar? (2000) sem byggir á lögum og/eða textum Borgfirðinga eystri. Sá diskur var tekinn upp í Stúdíó Steinholti á Seyðisfirði. Það var Magnús Bjarni Helgason frá Borgarfirði eystra sem sá um útgáfu á þeim diski, en Einar Bragi Bragason skólastjóri Tónlistarskóla Seyðisfjarðar, sá um upptökur og aðstoð við útsetningar.

Niðurstaðan var sú að gefa allt efnið út á safndiski og í framhaldi af því var farið í þá vinnu að endurhljóðblanda og endurvinna sum laganna að hluta og hefur sú vinna staðið yfir í samvinnu við Brynleif Hallsson á Akureyri s.l. 2 ár. Einnig var bætt við 5 lögum, þar af tveim lögum sem undirritaður hefur komið að á öðrum útgáfum, annarsvegar á diskinum ?Það sem sólin sér? (2003) sem gefinn var út af Snorra Evertssyni á Sauðárkrók og diskinum ?Í Ásbyrgi? sem Aðalsteinn Ísfjörð á Húsavík gaf út árið 2003.

Á þessari útgáfu eru laga og textahöfundar í fyrirrúmi, samtals 42 talsins og hefur efnið rekið á fjörur hljómsveitarinnar með ýmsu móti, en það hefur verið áhugamál sérstaklega undirritaðs, að varðveita hluta af því mikla efni sem til er vítt og breitt um landið, þó að verulegur hluti efnisins sé tengdur Austurlandi, þ.e. af heimaslóðum.

Það er skoðun undirritaðs að verulega vanti á að varðveislu og útgáfu verka alþýðutónlistarmanna og textahöfunda sé sinnt sem skyldi og því miður á mikið af þessu efni eftir að fara forgörðum, en því verður ekki breytt nema með markvissum björgunaraðgerðum.

Þeirri spurningu er því varpað hér fram hvort ástæða sé til að stofna einhverskonar samtök sem hefðu það að markmiði að vinna markvisst að varðveislu á íslenskri alþýðu dans og dægurlagatónlist frá fyrri tímum, ásamt því gífurlega magni sem til er í fórum fólks vítt og breitt um landið.

Gaman væri að heyra skoðanir fólks um það mál.

Það er von okkar að þú lesandi og kaupandi góður hafir nokkra ánægju af þessari útgáfu.

Kærar þakkir! Fyrir hönd hljómsveitarinnar. Friðjón Ingi Jóhannsson.

Sími. 461 5390 og 862-1403. Netfang frjo@simnet.is

Flytjendur á útgáfunni

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar.

Hljómsveitin er stofnuð á Egilsstöðum haustið 1995, en þá voru allir meðlimir hljómsveitarinnar búsettir á Egilsstöðum. Þrátt fyrir breytta búsetu er hljómsveitin enn skipuð sömu aðilum.

Árni Jóhann Óðinsson Egilsstöðum: Gítar, söngur. Daníel Friðjónsson Reykjavík: Trommur. Friðjón Ingi Jóhannsson Akureyri: Bassi, söngur.

Brynleifur Hallsson á Akureyri sá um endurhljóðblöndun, endurupptökur og masteringu.

Gestahljóðfæraleikarar og söngvarar.

Söngur: Aðalheiður Borgþórsdóttir, Sesselja Ósk Friðjónsdóttir, Jóhanna Seljan Þóroddsdóttir, Ragnhildur Rós Indriðadóttir

Raddanir: Inga Þorvaldsdóttir, Auðbjörg Guðmundsdóttir, Aðalheiður Borgþórsdóttir, Brynleifur Hallsson, Bjarni Freyr Ágústsson.

Hljómborð: Davíð Þór Jónsson, Agnar Már Magnússon, Stefán Bragason, Eyþór Hannesson, Einar Bragi Bragason, Brynleifur Hallsson, Ágúst Ármann Þorláksson.

Gítar: Brynleifur Hallsson, Gunnar Ringsteð, Hlynur Guðmundsson.

Harmoníkur: Hreggviður Jónsson, Óðinn G. Þórarinsson, Ágúst Ármann Þorláksson, Eyþór Hannesson.

Slagverk: Karl Petersen, Benedikt Brynleifsson.

Saxófónar og þverflautur: Einar Bragi Bragason.

Trompet: Bjarni Freyr Ágústsson, Gunnar Axel Davíðsson.

Básúna: Þorvaldur Einarsson.

Mandólín: Jón K. Arnarson, Charles Ross.

Fiðlur: Charles Ross, Jaan Alavere.

Banjó: Charles Ross.

Hljóðfæraleikur í ?Blesa? af diskinum ?Það sem sólin sér?: Brynleifur Hallsson gítar, Benedikt Brynleifsson trommur, Matthías Stefánsson fiðla, Hlynur Guðmundsson gítar. Friðjón Jóhannsson bassi, söngur.

Hljóðfæraleikur í ?Komdu að dansa? af diskinum ?Í Ásbyrgi?: Aðalsteinn Ísfjörð harmoníka, Kristján Edelstein gítar og hljóðgerfill, Kristinn Svavarsson tenórsaxófónn, Haukur Pálmason trommur.


Blíðasti blær

Lag: Óðinn G. Þórarinsson

Texti: Magnús Stefánsson, Þórólfur Friðgeirsson

Óðinn G. Þórarinsson frá Fáskrúðsfirði byrjaði

ungur að spila á hljóðfæri og leika á dansleikjum.

Hann tók þátt í mörgum dægurlagakeppnum svo

sem S.K.T og F.Í.D og átti þar meðal annars vinningslög.

Óðinn hefur starfað við tónlistarkennslu, m.a. á Akranesi

og Fáskrúðsfirði. Lagið er frá árinu 1966 og er mjög

vel þekkt á Austurlandi og víðar.

Textahöfundar eru báðir Fáskrúðsfirðingar og eiga það

sameiginlegt að hafa verið kennarar um árabil.

Lagið kom upphaflega út með hljómsveitinni

á Austfirskum staksteinum 1996.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Hljómborð: Eyþór Hannesson

Gestahljóðfæraleikur:

Þverflauta: Einar Bragi Bragason

Raddir: Aðalheiður Borgþórsdóttir

Gítar: Brynleifur Hallsson

Fegurð landsins fjalla,

foss í klettagjá

hrífur hugi alla,

heillar silungsá.

Áður saman undum

upp við vötnin blá.

Blíðasti blær

bar okkur landi frá.

Lék þá allt í lyndi,

lífið brosti við,

ein þar festum yndi

undir báruklið.

Sífellt hugann seiddu

silungsvötnin blá.

Blíðasti blær

bar okkur landi frá.

Hlýddum á

hjörtun slá.

Og hinn blíðasti blær

bar okkur landi frá.

Enn er mér í muna,

manstu allt var hljótt,

ein við máttum una

úti þessa nótt.

Yfir hvelfdist húmið

heiðarvötnin blá.

Blíðasti blær

bar okkur landi frá.


Dansinn

Lag: Daníel Friðjónsson

Texti: Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir

Hér er á ferðinni yngsti lagahöfundurinn á útgáfunni, en það er

Daníel Friðjónsson tónlistarkennari og trommuleikari hljómsveitarinnar.

Daníel þurfti ekki að leita langt eftir texta, því amma hans

Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir frá Borgarfirði eystra, gerði þennan

?dansandi? texta við lagið.

Lagið kom upphaflega út á Austfirskum staksteinum árið 2003

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikur og söngur:

Söngur: Jóhanna Seljan Þóroddsdóttir

Gítar: Brynleifur Hallsson

Hljómborð: Davíð Þór Jónsson

Saxófónn: Einar Bragi Bragason

Komdu vina, komdu með mér, kvöldið fagurt er.

Komdu, nú er ég í stuði til að skemmta mér.

Fiðringur er fótum í, fjörið vex nú ótt,

komdu vina, komdu að dansa í nótt.

Tjúttum svo og tvistum, til í hvað sem er,

ballið er að byrja, flýttu þér.

Augnabliksins njótum, allt er ævintýr,

yfir töfrum dansins veröld býr.

Komdu vina, komdu með mér, kvöldið líður fljótt.

Könnum lífsins ævintýr og dönsum glatt í nótt.

Gáski þér í augum býr, glettið bros á vör,

göngum við í dansinn heit og ör.

Rómantíkin lifnar, líður ballið á,

hægt að vanga halla ég mér þá.

Lokalagið kæra, ætlað tveim og tveim

okkur fylgir er við göngum heim.

Komdu vina, komdu með mér, kvöldið fagurt er.

Komdu, nú er ég í stuði til að skemmta mér.

Fiðringur er fótum í, fjörið vex nú ótt.

Komdu vina, komdu að dansa í nótt.


Sigling á Lagarfljóti

Lag: Reynir E. Kjerúlf

Texti: Sigrún Björgvinsdóttir

Reynir E.Kjerúlf frá Vallholti í Fljótsdal starfaði á sínum tíma

með ?Fljótsmönnum?, einni fyrstu "bítlahljómsveit" á Héraði.

Reynir hefur oft sent lög í lagakeppni, en þetta lag hlaut

1. verðlaun í lagakeppni Harmoníkufélags Héraðsbúa árið 2000.

Sigrún Björgvinsdóttir á Egilsstöðum hefur gert nokkuð að því

að semja ljóð, texta og smásögur. Sigrún er einnig vel þekkt fyrir

handverk sitt.

Lagið kom upphaflega út á Austfirskum staksteinum 2 árið 2003

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Klarinettur: Daníel Friðjónsson

Gestahljóðfæraleikarar:

Gítar: Brynleifur Hallsson

Hljómborð: Davíð Þór Jónsson

Slagverk: Karl Petersen

Það er hlýr og fagur dýrðardagur,

döggvot jörðin brosir hlýju sumrinu mót.

Fljótsdalshérað sveipað inn í sindrandi grænan skóg,

sólgullið skín Lagarfljót.

Og við siglum tvö í sunnanblænum,

svona getur lífið verið elskendum gott.

Í ljósu hári leikur blærinn, ljómi úr augum skín,

loks hefur ræst óskin mín.

Þannig getur orðið okkar ævi,

eins og draumasigling yfir glitrandi unn.

Reynum bæði að halda í þessa hamingjuljúfu stund,

hugsa og þrá nýjan fund.

Blikar báruna á

bjart er yfir að sjá,

fleyið okkar það líður landi grænu frá.

Svífum nú saman,

sæl, um þessa skínandi slóð,

gleði, bros og gaman,

greypt í minninga sjóð.


Sumarstemning

Lag: Eyþór Hannesson

Texti: Stefán Bragason.

Eyþór Hannesson frá Borgarfirði eystra hefur starfað

í fjölda hljómsveita á Austurlandi í gegnum tíðina.

Eyþór var meðlimur Danshljómsveitar Friðjóns Jóhannssonar

1996-1997. Þar á undan störfuðu þeir Eyþór og Friðjón saman í

hljómsveitunum Bergmál og Tríói Eyþórs frá þvi 1986.

Stefán Bragason bæjarritari á Egilsstöðum sem einnig hefur

starfað í fjölda hljómsveita á Austurlandi, m.a hljómsveitinni

Völundi o.fl, semur síðan þessa sumarstemningu við lagið 1994.

Lagið kom áður út á Austfirskum staksteinum 1996.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Hljómborð: Eyþór Hannesson

Gestahljóðfæraleikarar:

Saxófónar, þverflauta, hljómborð: Einar Bragi Bragason

Gítar: Brynleifur Hallsson.

Nú þegar sumarið vangana vermir,

og í vindhviðunum lauf blakta á tré.

Þegar í heiðríkju ský um skjótast

þá skondna hluti hvarvetna heyri og sé.

Þá úti í sandbingnum krakkarnir kýta

og svo kyssast þau á horblautan munn

af því að stelpurnar stráka heilla,

já sú staðreynd öllum er löngu orðin kunn.

Og hjá börnum er sól í sinni,

þau sækja í þann brunn.

Dökkbrúnir smiðir við húsin sín hamast,

aðrir hætta að vinna korter í fimm.

En ýstrubelgir um garð sinn ganga

og grasið slá, já það er rétt hæfilegt trimm.

Og ungar konur með barnavagn bruna,

en inni í búðunum er öðrum ei rótt.

Svo heima á verönd þær brjóst sín bera

því brúna kroppinn þær vilja eignast svo fljótt.

Hjá þessu fólki er sól í sinni

og sumarbjört nótt.

Já það er sumar og létt því lundin

og lífið fær þennan rómantíska blæ.

Þó oft mér finnst vera stutt hver stundin

er staldrað við fæ.

Í unglingsbrjóstum þá hjörtun hoppa

ef að hittast úti á götu sveinn og snót.

Með rjóðan vanga þar strákar stoppa

stúlkum á mót.

Þá úti á bekk situr gráhærður garpur

og gefur kunningjum tóbak úr dós.

Meðan að konan hans lág og lotin

lítur eftir knúbbum á fallegri rós.

Og þau virðast svo sælleg á svipinn

þarna saman eins og börn, hér um bil,

er þau rifja upp dýrðardaga

og hve dásamlegt fannst þeim að vera til.

Já þau bíða með sól í sinni

í sumarsins yl.


Lífsganga

Lag: Daníel Friðjónsson

Texti: Sigríður Sigurðardóttir

Þetta er fyrsta lag Daníels Friðjónssonar trommuleikara hljómsveitarinnar.

Daníel hefur starfað í hljómsveitinni frá árinu 1995. Hann er blásarakennari

að mennt og starfar við tónlistarkennslu hjá Tónlistarskóla Mosfellsbæjar og víðar.

Daníel þurfti ekki að leita langt eftir texta við lagið, því hann er saminn

af móður hans Sigríði Sigurðardóttur bankastarfsmanni frá Borgarfirði

eystra. Það er síðan faðirinn og eiginmaðurinn Friðjón Ingi Jóhannsson

frá Finnsstöðum í Eiðaþinghá sem syngur lagið.

Lagið kom upphaflega út á Austfirskum staksteinum 2 árið 2003

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikarar:

Rafgítar: Brynleifur Hallsson

Hljómborð: Davíð Þór Jónsson

Rafgítar: Gunnar Ringsteð

Slagverk: Karl Petersen

Er við hittumst fyrst svo ung og óreynd vorum þá,

ótrauð þá litum fram á lífsins veg.

Framtíð okkar beið svo full af von og full af þrá,

við fundum ást,

við áttum trú,

og vildum vera saman.

Svo lögðum við sigurviss út á lífsins braut,

stigum fyrstu sporin hönd í hönd.

Örugg um að ástin ynni hverja þraut,

við höfðum von og trú

og vildum vera saman.

Þó brautin okkar reyndist ekki alltaf bein og greið,

birti ávallt upp þó syrti að.

Lífsgönguna saman þreytum, ávallt finnum leið,

við eigum ást,

við eigum trú,

og viljum vera saman.

Lítum nú saman yfir lífsins veg,

lært við höfum af því sem miður fór.

Brosum mót birtu dagsins, þú og ég,

enn eigum okkar ást

og viljum vera saman.


Ljósbrot

Lag: Þorlákur Friðriksson

Texti: Helgi Seljan

Þorlákur Friðriksson bóndi á Skorrastað í Norðfjarðarsveit semur

lagið 1999. Hann á í fórum sínum fjölda frumsaminna laga.

Þorlákur er þekktur fyrir að fara á kostum á samkomum sem

gamanvísnasöngvari, veislu og fjöldasöngsstjórnandi.

Helgi Seljan bróðir Þorláks, fyrrverandi kennari og alþingismaður

Austurlands, er vel þekktur fyrir texta sína og ljóðagerð, einnig hefur

gjarnan komið í hans hlut veislustjórn og gamanvísnasöngur á

samkomum. Lagið kom út á Austfirskum staksteinum 2 árið 2003

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikarar , söngur:

Röddun: Bjarni Freyr Ágústsson

Harmoníka, hljómborð: Ágúst Ármann Þorláksson

Gítar: Brynleifur Hallsson

Slagverk: Karl Petersen

Seiðandi danslagið syngur þýðan óð

er saman við göngum á leið.

Ljúfir berast tónar er við leiðumst þekkta slóð,

laða fram töfrandi seið.

Angan frá moldu og ilmur fer úr skóg,

yndisleg vorgolan hlý.

Færist yfir húmblæjur í hljóðri aftanró

heiðblámi vestrinu í.

Vorið ríkir, vonir rætast,

varirnar í kossi mætast,

óðar hjörtun ungu kætast

enn á ný.

Raddir vorsins áfram óma,

augu þín af kærleik ljóma,

armlög þín undurhlý.

Minningin geymist þó árin líði ótt,

umvefur hug minn í kvöld.

Lagið okkar seiðandi, ljúft og undurhljótt,

lokkar og tekur öll völd.

Dísin mín góða hún draumsýn engin var,

dögunum eyddi hjá mér.

Henni mun ég fylgja glaður allt til eilífðar

unun í fylgd hennar er.

Áfram þó að árin renni

unna mun ég sífellt henni,

sæll ég hennar kossa kenni,

kærleikans glóð.

Vorsins raddir ennþá óma,

ætíð bera töfrahljóma,

verma okkur vinan góð.


Kveðjustundin

Lag: Þorvaldur Friðriksson.

Texti: Kristján Ingólfsson.

Þorvaldur Friðriksson múrari frá Eskifirði hefur samið fjölda

dans og sönglaga og spilaði á árum áður á dansleikjum

víða um Austurland. Hann lést árið 1996.

Árið 2003 var gefinn út diskurinn ?Lögin hans Valda? til

minningar um Þorvald, af Kristínu Pétursdóttur ekkju

Þorvaldar og börnum þeirra hjóna, en þetta lag er að finna á þeim

diski. Á sama tíma var Danshljómsveit Friðjóns búin að taka lagið

upp, en ákveðið var að bíða með útgáfu þess þar til nú.

Textahöfundurinn Kristján Ingólfsson fæddist á Seyðisfirði 1932.

Hann var kennari og skólastjóri um árabil. Kristján lést langt fyrir

aldur fram árið 1977.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikur:

Harmoníka: Ágúst Ármann Þorláksson

Gítar: Brynleifur Hallsson

Nú komin er kveðjustund okkar

og kossinn ég síðasta fæ.

En minningin merlar og lokkar,

sú minning fer aldrei á glæ.

Innst í hjarta sem gull ég þig geymi

þú ert glóbjarta drottningin mín.

Þó árin til eilífðar streymi

fer aldrei burt myndin þín


Fyrr og nú

Lag: Bragi Gunnlaugsson Setbergi

Texti: Sólrún Eiríksdóttir frá Krossi

Lagið semur Bragi bóndi á Setbergi í Fellum árið 1952.

Lög sín kallar hann gjarnan ? Berglög?, þar sem hann segist

njóta ómældrar aðstoðar álfa og huldufólks við gerð laga sinna.

Bragi á þó nokkuð af frumsömdum lögum.

Textinn er eftir Sólrúnu Eiríksdóttur f.v. húsfreyju

á Krossi í Fellum. Eftir hana liggur fjöldi ljóða, m.a. var

gefin út ljóðabókin ? Á Austurlandi leit ég sól?, sem hefur að

geyma kveðskap hennar, ásamt ljóðum eftir eiginmann hennar

Sigfús Guttormsson. Sólrún lést árið 2000.

Lagið kom áður út á Austfirskum staksteinum 2 árið 2003.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikarar:

Orgel: Davíð Þór Jónsson

Tamborína: Karl Petersen

Manstu okkar fornu fögru kynni,

þá fögur ríkti sumarnóttin heið.

Við dönsuðum, þín dvaldi hönd í minni

og dýrðleg var sú stund, en fljótt hún leið.

Því dagur rann þá dansfólk burtu flytur,

á döggvott grasið sólin geislum sló,

en síðan hefur komið kaldur vetur,

þú kemur þegar vorið laufgar skóg.

Mig dreymir um þig daga og langar nætur,

í draumum mínum birtist myndin þín,

því ástin festi órjúfandi rætur

í okkar hjörtum kæra vina mín.

Ég minnist þín í vöku og værum blundi,

ég veit að hjá mér dvelur hugur þinn.

Þá rökkur-kyrrð er yfir sveit og sundi

í sælum draum ég nálægð þína finn.

Nú brosir lítill bær í hvammi grænum,

á bakvið hann er fögur skógarhlíð,

þrastarsöngvar óma í aftanblænum,

undir niðar lindin mild og þýð.

Á kvöldin þegar þrautin dags er unnin

og þreyttur kem ég heim þú fagnar mér

og kæra mín ég kyssi þig á munninn,

í kvöldsins friði bý ég sæll hjá þér.


Héraðsrúmban

Lag: Óþekktur höfundur

Texti: Sigurður Óskar Pálsson

Í minningu Magnúsar Þorsteinssonar frá Húsavík, (eystri)

er gladdist flestum Borgfirðingum betur við söng og dans

og gaf laginu þetta nafn, en Jón Bjarnason harmoníkuleikari

spilaði gjarnan þetta lag á dansiböllum á Borgarfirði eystra.

Sigurður Óskar Pálsson fyrrverandi kennari og skólastjóri

frá Borgarfirði eystra (fæddur í Breiðuvík) hefur verið

afkastamikill í skrifum, bæði á bundið og óbundið mál.

Eftir hann hefur m.a. komið út ljóðabókin ?Austan um land?, sem gefin

var út af Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi árið 2001.

Lagið var áður gefið út með hljómsveitinni á ?Fjörðurinn okkar?, árið 2000.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikarar:

Hljómborð: Davíð Þór Jónsson

Flautur: Einar Bragi Bragason

Burstar: Karl Petersen

Létt við stjarnanna skin og við norðurljósalog

þetta ljóð vil ég syngja í kveld.

Nú er vetur um jörð, byltist brim um sker og vog,

bera grundirnar mjallhvítan feld.

Syng ég sorg úr barmi,

sumargleði inn,

varpa hljóðum harmi,

hýrnar svipur minn.

Létt við stjarnanna skin og við norðurljósalog

lífsins gleði ég fagna í kveld.

Löngum minnist ég þess hversu undra ákaft fjör

áður hérna í skólanum var.

Borgfirsk dansmannasveit var á sporin ekki spör

er hún spriklaði á gólfinu þar.

Margir milli dansa

menn sér flýttu út,

drjúgum dauða og "lansa"

drukku þar af stút.

Síðan aftur í dansi með sviptingar og sving

sveitin brunaði hring eftir hring.


Gleðisveifla

Lag og texti: Stefán Bragason

Þetta lag semur Stefán Bragason frá Surtsstöðum í

Jökulsárhlíð árið 1993 í tilefni af 40 ára afmæli sínu og

var textinn upphaflega tengdur þeim tímamótum.

Þar sem lagið þótti grípandi danssveifla gerði Stefán

annan texta við lagið, þannig að nota mætti það við

öll tækifæri. Lagið kom áður út með hljómsveitinni á

Austfirskum staksteinum 1996

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Hljómborð: Eyþór Hannesson

Gestahljóðfæraleikur:

Píanó: Stefán Bragason

Saxófónar, hljómborð: Einar Bragi Bragason

Gott er mjög í kreppu að kætast,

kynnast fólki, vingast, mætast.

Langt um verður lífið skárra þá.

Öll við þekkjum ættarmótin,

árshátíðir, þorrablótin.

Amstri dagsins oft þar gleyma má.

Saman vinir sveiflast þar í galsa,

sæla dansins fáu virðist lík.

Fætur stíga foxtrott, polka og valsa

og faðmlög vekja æskurómantík.

Látum rætast leynda drauma,

lífsins vekjum gleðistrauma.

Dönsum þó að drjúpi sviti af brá.

Kominn heim.

Lag: Óðinn G. Þórarinsson

Texti: Stefán Bragason

Þetta er eitt af 14 lögum Óðins G. Þórarinssonar á þessari

útgáfu. Í þessu lagi leikur Óðinn sjálfur á nikkuna.

Stefán Bragason bæjarritari Egilsstöðum semur síðan þennan

rómantíska texta fyrir útgáfu laga Óðins árið 1997.

Lagið kom áður út á diskinum Við tónana klið, árið 1997

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikarar:

Harmonika: Óðinn G. Þórarinsson

Raddir: ?Út úr þokunni? Aðalheiður Borgþórsdóttir,

Inga Þorvaldsdóttir, Auðbjörg Guðmundsdóttir

Einn í kvöldblíðunni horfi út á hafið,

þar sem hæglát aldan vaggar litlum bát.

Og í sólarloga allt hér virðist vafið,

vorsins nýt og andann dreg með gát.

Kominn heim loks eftir ótal ár

og af gleði í sandinn felli tár,

lít hér þá dýrð sem ætíð vissi að var.

Áður bjó ég hér við fagran fjörð,

undi frjáls í sátt við móður jörð,

en þó mig útþrá burtu bar.

Hér á sumarkveldi ferðalúinn fagna

og ég finn nú titra í brjósti mínu streng.

Fyrstu kvöldskuggarnir minningarnar magna,

morgunn lífsins birtist gömlum dreng.


Þá og nú

Lag: Óðinn G. Þórarinsson

Texti: Stefán Bragason

Lagið er eitt af yngri lögum Óðins G. og heyrðist

fyrst á diskinum ?Austfirskir staksteinar? árið 1996.

Óðinn G. fékk Stefán Bragason sem gert hefur fjölda

dægurlagatexta bæði við sín eigin lög og annara,

til að semja textann fyrir þá útgáfu.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Hljómborð: Eyþór Hannesson

Gestahljóðfæraleikur og söngur:

Þverflauta: Einar Bragi Bragason

Röddun: Aðalheiður Borgþórsdóttir

Æskan að baki,

einn nú ég vaki,

fer yfir farinn veg.

Oft var hún yndisleg, þeim

er glaðst þá gat.

Árin þó liðu,

annir biðu,

tíminn flaug mér frá.

Fyrst nú má

leggja á lífshlaupið mat.

Manstu þá tíð

ung er við gengum glöð.

Ástfangið par

alsælt þá var

og atlot blíð.

Vornótt leið skjótt,

sólin hófst úr hafi.

Bærðist vart blað á grein,

bergnumin stóðum ein.

Ég man þá nótt.

Hauströkkrið hnígur,

hnjúka á sígur,

lít ég hér liðinn dag.

Allt var með öðrum brag, nú,

en víst þá var.

Hrím er í hlíðum,

hljómi stríðum

valda sjávar sog.

Sérhvern vog

skyggir skýjanna far.


Vonarland

Lag og texti: Garðar Harðarson

Garðar Harðarson frá Stöðvarfirði samdi lag

og texta í tilefni af lagakeppni 1988, er haldin var til

styrktar sundlaugarbyggingu við Vonarland, sem var

heimili fyrir þroskahefta á Egilsstöðum, en lagið

sigraði í þeirri keppni.

Í dag eru breyttar áherslur í málefnum þroskaheftra.

Nú er lögð megináhersla á það að viðkomandi einstaklingar

komist út í lífið eins og aðrir þegnar og búi í eigin

húsnæði í eigin heimabyggð.

Lagið kom áður út á Austfirskum staksteinum 1996

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Hljómborð: Eyþór Hannesson.

Gestahljóðfæraleikur:

Saxófónn: Einar Bragi Bragason

Sumir fæðast ekki alveg

eins og aðrir, en eiga þó

sama réttinn, sömu vonir,

sama frelsi, sömu ró.

Til að fá að leika, fá að starfa,

fá að treysta bræðraband.

Eignast vini, eiga kærleik,

eignast eigið vonar land.

Til framtíðar horfa öll við ættum,

eygja þar birtu, ljós og yl.

Yrkja um frelsið, yrkja um friðinn,

yrkja um að fá að vera til.

Við syngja skulum hér saman

sönginn okkar ég og þú.

Þá verður glaumur og gaman,

gleði bjartsýni og trú.

Við skulum leika, við skulum starfa,

við skulum treysta bræðraband.

Við skulum kyrja sönginn saman,

við skulum syngja um Vonarland.


Láttu þig dreyma

Lag: Eyþór Hannesson

Texti: Stefán Bragason.

Þetta lag semur Eyþór Hannesson frá Borgarfirði

eystra, í tilefni af fyrstu Eurovisionkeppni Íslands,

árið 1986, en fékk þar að lúta í lægra haldi fyrir

Gleðibankanum fræga. Stefán Bragason bæjarritari

á Egilsstöðum gerði textann fyrir þá keppni.

Árið 1988 var rykið síðan dustað af laginu og það sent

í dægurlagasamkeppni sem haldin var til styrktar sund-

laugarbyggingu við Vonarland á Egilsstöðum og varð

lagið þar í 2.sæti.

Lagið kom áður út á Austfirskum staksteinum 1996.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Hljómborð: Eyþór Hannesson

Gestahljóðfæraleikur:

Saxófónn: Einar Bragi Bragason

Einn á kyrrlátu kveldi

kenni ég barnslega þrá

eftir vissu, friði og fegurð

og án feigðar heim að sjá.

Meðan hægt leggst húm yfir sæinn,

hljóðna götunnar sköll

því að börnin ganga brátt til hvílu,

burtu hróp þeirra öll og köll.

Ávallt þráum við ást og hlýju,

ungra sem gamalla þörf sú er brýn.

Aukum kærleikans afl að nýju,

það ósk er mín.

Ég á dýrlegan draum,

draum um veraldar ást,

ugglaust gæti hvert barn fest sinn blund.

Að því gefa skal gaum,

gjarnan saklausir þjást.

Mörg í lífinu stríðandi er stund.

Einn á kyrrlátu kveldi,

kenni ég uggs í sál.

Mun sú friðsæld ætíð endast,

erjur jafnvel kveikja bál?

Mér finnst þögnin æpa af angist,

ótti í bárunnar klið.

Þó að sífellt hræðumst svik og ágirnd

saman biðjum við um frið.


Við mættumst

Lag: Óðinn G. Þórarinsson

Texti: Magnús Pétursson

Eitt af 14 lögum Óðins G Þórarinssonar

á þessari útgáfu, en lagið kom út á diskinum

Við tónanna klið, með lögum Óðins G. árið 1997.

Magnús Pétursson ( f. 1890 d.1976) gerði þennan

rómantíska texta við lagið. Magnús var ættaður frá

Borgarfirði syðra, en hann starfaði lengst

af sem kennari við Barnaskólann á Akureyri.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Hljómborð: Eyþór Hannesson

Gestahljóðfæraleikur og söngur:

Harmonika: Óðinn G. Þórarinsson

Raddir: Aðalheiður Borgþórsdóttir

Bjart er yfir löngu liðnum kvöldum,

léttur ilmblær hljótt um dalinn rann.

Hlíðar klæddust húmsins fölvu tjöldum,

hinsti geisli fjærstu tinda brann.

Tvö við undum engin gerðist saga,

ilspor mást svo létt um troðinn veg.

Samt ég man það, man það alla daga,

við mættumst til að kveðjast þú og ég.

Sjáir þú á ?gleym mér eii? glitra

gullið daggartár við morgunskin.

Og í þínu hjarta hljóðir titra

hljómar sem að minna á fornan vin.

Og er máni á mildu sumarkveldi

merlar geislarúnum vog og sund.

Blik af mærum minninganna eldi

muni geyma næstum gleymdan fund.

Báruniður

Lag: Óðinn G. Þórarinsson

Texti: Loftur Guðmundsson

Eitt af 14 lögum Óðins G. Þórarinssonar

á þessari útgáfu. Vel þekkt lag frá fyrri tíð.

Lagið kom út á diskinum Við tónanna klið

árið 1997.

Loftur Guðmundsson (f. 1906 d. 1978) semur

þennan ljúfa texta eins og honum var einum lagið,

en hann var afkastamikill texta og rithöfundur.

Vitað er um 87 texta eftir Loft, sem komið hafa

út við hin ýmsu lög.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikur, söngur:

Raddir: Aðalheiður Borgþórsdóttir

Harmonika: Ágúst Ármann Þorláksson

Um fjörusand lágan ég fjölmörg á spor,

hvert fjarðarvik og lón man ég vel.

Er hafræna lék sér við ljósgullin fald

ég lék mér þar að kuðung og skel.

Í vörinni lék ég mér vorlangan dag

er vissi ég af pabba út á sjó.

Á hörpudisk smáan ég hlaðafla í svip

af heilagfiski úr lónpolli dró.

Og blíður varð svefninn við bárunnar nið,

er blærinn vakti draumunum óð.

Og enn gegnum svefninn að eyrum mér berst

hið undurfagra seiðandi hljóð.


Haust fyrir austan

Lag: Óðinn G. Þórarinsson

Texti: Einar Georg

Eitt af 14 lögum Óðins G. Þórarinssonar sem

kom út á diskinum Við tónanna klið árið 1997.

Textinn er eftir Einar Georg Einarsson kennara

og hagyrðing. Einar er einnig vel þekktur fyrir

veislustjórn og framsetningu gamanmáls við hin

ýmsu tækifæri.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Hljómborð: Eyþór Hannesson

Gestahljóðfæraleikur:

Saxófónar: Einar Bragi Bragason

Haustið dregur

húm á tinda,

sólin týnist

í sjóinn fljótt.

Sumir eiga um

sárt að binda,

vantar gleði,

og vantar þrótt.

Burtu halda

bjartar nætur,

köldum vetri

þá kvíðir drótt.

Sefur alda,

sáran grætur

saklaus drengur,

um svarta nótt.

Skýin taka að skjóta upp ljótri kryppu,

skuggar langir þyrpast fram á völl.

Hylur sortinn okkar fríðu fjöll.

Ó fagra vor, ó fagra vor.

Burtu halda

bjartar nætur,

sólin týnist

í sjóinn fljótt.

Sefur alda,

sáran grætur

saklaus drengur

um svarta nótt.


Blesi

Lag: Snorri Evertsson

Texti: Guðbrandur Þorkell Guðbrandsson

Þetta lag eftir Snorra Evertsson mjólkurbússtjóra

á Sauðárkróki til margra ára , kom út á diskinum

?Það sem sólin sér?, sem kom út árið 2003 en á þeim

diski eru 14 lög eftir Snorra. Textinn er eftir Guðbrand

Þorkel Guðbrandsson á Sauðárkróki, en hann hefur um

árabil starfað sem skrifstofumaður hjá Kaupfélagi Skagfirðinga.

Brynleifur Hallsson á Akureyri útsetti lagið og annaðist

upptökur.

Söngur, röddun, bassi: Friðjón Jóhannsson

Trommur/slagverk: Benedikt Brynleifsson

Gítar: Hlynur Guðmundsson

Gítar: Brynleifur Hallsson

Fiðla: Matthías Stefánsson

Er dag fer loksins að lengja

þá lyftist brúnin á mér.

Þá fer ég að huga að beislinu og hnakknum,

í hesthúsið rakleiðis fer.

Ég leysi Blesa af básnum,

beisla´ann og teymi af stað.

Svo legg ég hnakkinn á hrygginn á klárnum,

og herði gjörðina að.

Í ístaðið svo ég tylli tánum,

svo takist sveiflan með stæl.

En Blesi líður engum bjánum

að brúka sig eins og þræl.

Svo það næsta sem ég veit að hesthúshlaðið

er hart og rennandi vott.

En ekki skal ég fortaka að á klárnum sjáist glott.

Blesi minn, - klárinn minn.

Blesi minn, - Blesi klárinn minn.

Þvílík þrjóska og hrekkir,

en þrjóskur líka er ég.

Öskrandi stekk ég svo aftur á klárinn,

en allt fer á sama veg.

Þá skal friðargjörð framin,

ég fer að Blesa með gát.

Nú er hann alveg hreint stilltur og staður

þá stend ég bara mát.

Klárinn byrjar á að fara fetið,

en ferðina eykur hann senn.

Enginn fær á slíkum ofsa setið,

svo upphefst sagan enn.

Það næsta sem ég veit að hesthúshlaðið

er hart og rennandi vott.

En nú er ljóst, að hrossin geta glott.

Blesi minn, -klárinn minn.

Blesi minn, - Blesi klárinn minn.


Komdu að dansa

Lag: Aðalsteinn Ísfjörð

Texti: Elís Kjaran Friðfinnsson

Aðalsteinn Ísfjörð múrari á Húsavík hefur leikið með

fjölda hljómsveita gegnum tíðina, en þekktust þeirra

mun þó vera ?Húsavíkur-Haukarnir? Aðalsteinn hefur

samið nokkuð af lögum og gaf út disk árið 2000 með

eigin lögum í bland við annað efni.

Textann við þetta lag gerði síðan hinn þekkti ýtumaður

og hagyrðingur Elís Kjaran frá Þingeyri við Dýrafjörð.

Kristján Edelstein á Akureyri sá um útsetningu og upptöku

á laginu.

Harmoníka: Aðalsteinn Ísfjörð

Söngur: Friðjón Jóhannsson

Gítar, hljóðgerfill: Kristján Edelstein

Tenórsaxófónn: Kristinn Svavarsson

Trommur: Haukur Pálmason

Þegar harmónikan dunar

dulin þörf í æðum funar,

þá er yndislegt að vera í faðmi þínum litla stund.

Vita þrá í björtum barmi,

bros á ljúfum augnahvarmi,

armlag þétt, og finna ylinn af léttri lund.

Mjúkir fingur saman fléttast,

frjálsir tónar blíðir glettast,

og við eigum hvort með öðru þennan fund.

Komdu að dansa, komdu að dansa,

látum tónaflóðið vísa okkur veg.

Komdu að dansa, komdu að dansa,

stígum ljúfa taktinn bæði þú og ég.

Inn í töfra huldu hallir

harmoníkutónar snjallir

munu bera okkur vængjum sínum á um draumalönd.

Þar sem ástarguðagalsinn

gefur fyrirheit um valsinn,

og við svífum inn á pálmaviðarströnd.

En við frjálsan kossafuna,

finn ég alsæluna duna,

þá er unaðslegt, mér halda engin bönd.

Komdu að dansa........

Harmoníkutónar lifa

tvöföld sæla er að lifa

er að lokum dansinn vekur bros á brá.

Komdu að dansa........


Fljótdalshérað

Lag: Hreggviður M. Jónsson

Texti: Ragna S. Gunnarsdóttir

Þetta lag eftir Hreggvið Jónsson frá Torfastöðum

í Jökulsárhlíð, kom út á Austfirskum staksteinum

árið 1996.

Hreggviður sem verið hefur starfsmaður Landsvirkjunar

um árabil, á þó nokkuð af frumsömdu efni.Hann

var um tíma harmoníkuleikari Danshljómsveitar

Friðjóns Jóhannssonar

Ragna S. Gunnarsdóttir frá Gilsá á Jökuldal

samdi síðan þennan fallega óð til Héraðsins.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikarar:

Harmonika: Hreggviður Jónsson

Fiðla: Charles Ross

Fljótsdalshérað, fagri friðarreitur,

fjöllin þín há með snæviþakta tinda,

beljandi ár í gljúfrum, græna skóga,

glampandi læki, suðu tærra linda.

Um grösugar hlíðar gróa blóm og lyng,

glampa sem spegill heiðarvötnin blá,

hver sá er sína æsku ól þér hjá

sinn aldur í muna geymir fegurð þína.

Fljótsdalshérað, fagra æskubyggð,

ég flyt þér innstu hjartanskveðju mína.

Austfjarðaþokan

Lag: Ingi T. Lárusson

Texti: Sigurður Ó. Pálsson

Ekki þarf að kynna höfund þessa lags,

en það er sjálfur Ingi T. Lárusson tónskáld.

Lagið hefur þó þá sérstöðu að vera nánast eina

danslagið sem varðveist hefur eftir hann.

Þetta lag er upphaflega samið fyrir harmoníku,

en á sjöunda áratugnum gerði Sigurður Óskar

Pálsson kennari og skólastjóri frá Borgarfirði

eystra (Breiðuvík) þennan austfirska texta við lagið.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Harmonika: Eyþór Hannesson

Gestahljóðfæraleikur:

Klarinettur: Einar Bragi Bragason

Austfjarðaþokan yfir láð og lög

læðist sínum mjúku daggarfótum,

þögul hylur fell og tind og daladrög,

dimmust er hjá brekkurótum.

Sveipar döggvum hlíð og græna grund,

geymir lítinn bát á fiskimiði.

Kyrrlát inn í brjóst og Austfirðingsins lund,

andar sínum dula friði.

Hún glettist stundum vegfarendur við,

og vakið getur þeirra reiði,

er hennar vegna hafa verða bið

um hánótt upp á Fjarðarheiði.

Hurðinni laumaðu loku frá

og læðstu út í vorkvöldið hýr á brá.

Austfjarðarþokan er engri þoku lík,

hún er elskendum góð og skilningsrík.

Spor þeirra felur á grænni grund

með glitrandi döggvum um óttustund.

Náttlangt hún hylur velli, vötn og gil,

en víkur fyrir sólinni um dagmálabil.


Nú liggur vel á mér

Lag: Óðinn G. Þórarinsson

Texti: Númi Þorbergsson

Þetta lag er líklega það þekktasta sem Óðinn G.

hefur samið. ?Nú liggur vel á mér? varð í fyrsta

sæti í danslagakeppni F.Í.D. árið 1958, og hefur

lifað með þjóðinni síðan. Lagið kom út á diskinum

?Við tónanna klið? árið 1997, og var þá spilað í

línudansútsetningu, en það dansform var þá fyrir skömmu

orðið mjög vinsælt hér á landi. Upphaflega kom lagið

út með Ingibjörgu Smith, seinna með Lummunum og

fyrir skömmu með K.K og Magnúsi Eiríks.

Textahöfundurinn Númi Þorbergsson (f 1911-d 1999) var

fæddur í Borgarfirði syðra, en bjó lengst af í Reykjavík.

Þar starfaði hann um árabil við verslunarstörf o.fl.

Númi hefur samið fjölda þekktra dægurlagatexta. Vitað er

um a.m.k. 70 texta sem komið hafa út eftir hann við hin

ýmsu lög.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikur og söngur:

Saxófónar: Einar Bragi Bragason

Raddir: ?Út úr þokunni? Aðalheiður Borgþórsdóttir,

Inga Þorvaldsdóttir, Auðbjörg Guðmundsdóttir

Stína var lítil stúlka í sveit,

stækkaði óðum blómleg og heit.

Hún fór að vinna, var margt að gera,

lærði að spinna, látum það vera.

Svo var hún úti sumar og haust,

svona var lífið, strit endalaust.

Samt gat hún Stína söngvana sína

sungið með hárri raust.

Nú liggur vel á mér.

Nú liggur vel á mér.

Gott er að vera léttur í lund,

lofa skal hverja ánægjustund.

Gaman fannst Stínu að glettast við pilt,

gaf hún þeim auga, var oftast stillt.

Svo sá hún Stjána, það vakti þrána,

hann kom á Grána út yfir ána.

Sæl var hún Stína saklaus og hraust,

svo fór hann burtu koldimmt um haust.

Samt gat hún Stína söngvana sína

sungið með hárri raust.

Nú er hún Stína gömul og grá,

getur þó skemmt sér dansleikjum á.

Situr hún róleg, horfir á hina

hreyfast í takt við dansmúsikina.

Alltaf er Stína ánægð og hraust,

aldrei finnst henni neitt tilgangslaust.

Enn getur Stína söngvana sína

sungið með hárri raust.


Þegar þoka grá

Lag: Gylfi Gunnarsson

Texti: Valgeir Sigurðsson

Gylfi Gunnarsson frá Seyðisfirði, tónlistarkennari og

skólastjóri Tónlistarskóla Seltjarnarness, semur lagið

1965, en lagið var og er enn mikið sungið af Austfirðingum,

sérstaklega þó ?gömlum? Eiðanemum.

Gylfi hefur starfað mikið við tónlist, m.a. í

hljómsveitinni Einsdæmi frá Seyðisfirði

og síðan Þokkabót o.fl.

Valgeir Sigurðsson (f.1924 d.1995) kennari

á Seyðisfirði um árabil , samdi textann, en hann

er með þekktari textahöfundum Austurlands.

Lagið kom áður út með hljómsveitinni á

Austfirskum staksteinum árið 1996

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Hljómborð: Eyþór Hannesson

Gestahljóðfæraleikur og söngur:

Saxófónn: Einar Bragi Bragason

Röddun: Aðalheiður Borgþórsdóttir

Þegar þoka grá

þekur fjöllin blá,

næðir austanátt

yfir hafið blátt.

Þá skal hafa hátt

hrópa og syngja dátt,

grípa gítarinn

gefa honum inn.

Þá skal alla strengi strjúka,

stillta, þýða, harða mjúka.

Létta tóna láta fjúka

láta úr öllum strengjum rjúka,

yfir gólfið arka

og með hælum sparka.


Síðasti dansinn

Lag: Óðinn G. Þórarinsson

Texti: Loftur Guðmundsson

Vafalaust er þetta eitt allra þekktasta lag Óðins

G. Þórarinssonar, enda upphaflega flutt af Hauki

Morthens og síðar frænda hans Bubba Morthens.

Einnig sungu Alfreð Clausen og María la Garde

þetta lag saman á sínum tíma.

Lagið varð í 3. sæti í keppni S.K.T árið 1954.

Hér er lagið í þeirri útsetningu sem höfundur

hugsaði það upphaflega og kom út í

þessari mynd með hljómsveitinni á diskinum

Við tónanna klið 1997. Textinn er saminn af

Lofti Guðmundssyni, (f. 1906 d. 1978) er starfaði

m.a. sem blaðamaður hjá Alþýðublaðinu og Vísi.

Loftur var fjölhæfur listamaður, hann fékkst mikið

við þýðingar og ritstörf bæði á bundið og óbundið

mál, þar að auki var listmálun hans áhugamál.

Vitað er um 87 texta sem komið hafa út eftir

Loft við hin ýmsu lög.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikarar:

Hljómborð: Eyþór Hannesson

Saxófónn: Einar Bragi Bragason

Raddir: ?Út úr þokunni? Aðalheiður Borgþórsdóttir,

Inga Þorvaldsdóttir, Auðbjörg Guðmundsdóttir

Þennan síðasta dans

vil ég svífa með þér,

eina svipstund við tónanna klið.

Gleyma brimróti og nótt,

gleyma að bryggjuna við

liggur bátur, sem stefnt skal á mið.

Láta yl þinn og bros

tendra í æðum mér glóð,

til að orna við draumljúfri þrá.

Þegar stillt er á sæ,

þegar stjarnanna skin

gulli stráir um byrðing og rá.

Og er síðasti tónn

þessa seiðmjúka lags

hefur svifið frá titrandi streng

með hans bergmál að fylgd

og með bros þitt í sál

niður bryggjuna hljóður ég geng.

Marga svartnættisvakt

þennan síðasta dans

mun ég svífa með þér yfir dröfn.

Gegnum svarrandi brim

heyra seiðmjúkan tón

kalla sjómann í draumanna höfn.


Vor við Löginn

Lag: Birgir Björnsson

Texti: Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir

Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir frá Borgarfirði eystra

semur þennan texta að beiðni Arndísar

Þorvaldsdóttur á Egilsstöðum fyrir 17. júní 1994.

Upphaflega var textinn fluttur af telpnakór við lagið

?Undir bláhimni?.

Síðan gerir Birgir Björnsson rafvirki frá Geitavík

í Borgarfirði eystra þetta lag við textann.

Birgir spilaði í ýmsum danshljómsveitum á

Austurlandi m.a. Adam, Bigg-Fí-Band, o.fl.

Lagið kom út með hljómsveitinni á diskinum

Austfirskir staksteinar árið 1996.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikur:

Fiðla: Jaan Alavere

Banjó: Charles Ross

Gítar: Brynleifur Hallsson

Yfir blikandi Lagarins bárum

hvelfist bládjúpur himinn og tær

og við glitrandi síkvikum gárum

hreyfir gælandi suðlægur blær.

Og hann ber með sér blómanna angan

ilm af birki og lynggrónum hól,

allt hann vekur um vordaginn langan

sem í vetrarins armlögum kól.

Yfir Selskóg og ásana alla

fer hinn ilmríki, fagnandi blær

og í Vémörk er vorið að kalla,

þar sem vinaleg bláklukka grær.

En í kjarri og runnum er kliður

fuglar kveða þar lífinu söng,

þreytir undirleik árinnar niður,

sem hér ymur í klettanna þröng.

Hér er áfengur ilmur á vori,

hér er unaður, fegurð og ró,

hérna sjá má í sérhverju spori

litla sjöstjörnu vakna í mó.

Og í skóginum gott er að ganga

eftir grænkandi, döggvaðri slóð

og að leggja þar vanga að vanga,

meðan vorblærinn yrkir sín ljóð.


Kveldóður

Lag og texti: Stefán Bragason

Stefán Bragason frá Surtsstöðum í

Jökulsárhlíð semur þetta seiðmagnaða

rómantíska lag og texta árið 1976.

Stefán hefur starfað í fjölda hljómsveita á

Austurlandi m.a. hljómsveitunum Völundi,

Skruggu, Mánatríóinu, auk þess að

vera stoð og stytta í Héraðsvísnavinum.

Stefán er hagyrðingur hinn besti og gjarnan

leitað til hans þegar mikið liggur við.

Lagið kom áður út með hljómsveitinni á

Austfirskum staksteinum árið 1996.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikur og söngur:

Píanó: Stefán Bragason

Þverflauta: Einar Bragi Bragason

Röddun: Aðalheiður Borgþórsdóttir

Komið er kveld

kankvísir skuggar um lautir stökkva,

aftansins eld

eru á börðum að deyfa og slökkva.

Hlývindur hlær

hríslurnar bærir og stráin strýkur.

Nóttin er nær,

nafnlausum degi senn lýkur.

Fögnuð og frið

flytur sú nótt inn í sálu mína,

ljáðu mér lið,

lífsblómin skulum við saman tína.

Stór er sú stund,

stefnu ég breyti í lífi mínu.

Laufgum í lund

léttu af hjartanu þínu.

Ástin mín ein

unaðar skulum við saman njóta,

brautin er bein

blessun vornætur við munum hljóta.

Titrandi tár

tindrar sem stjarna á þínum hvarmi.

Ókomin ár

ólgu þér vekja í barmi.


Afmæliskveðja

Lag: Óðinn G. Þórarinsson

Texti: Einar Georg

Eitt 14 laga Óðins G. Þórarinssonar

á þessari útgáfu sem kom út með hljóm-

sveitinni á diskinum Við tónanna klið árið 1997.

Einar Georg frá Húsavík hefur starfað sem

kennari og skólastjóri um árabil.

Einar hefur samið þó nokkuð af textum fyrir

ýmsa lagahöfunda. Hann er líka vel þekktur

fyrir sína röggsömu veislustjórn og þá gjarnan

farið með frumsamið efni, bæði í bundnu

og óbundnu máli.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikarar:

Saxófónar, hljómborð: Einar Bragi Bragason

Trompet: Gunnar Axel Davíðsson

Básúna: Þorvaldur Einarsson

Þó bætist ár við ár

og aldur hrímgi brár

æskudraumnum aldrei skaltu týna.

Þú geymir söng í sál

hið sanna tungumál,

elsku vinur upp með þína skál.

Enginn skyldi liðinn tíma trega

týnt þó hafi staf og mal.

Stundum felur þoka vörður vega,

vandratað er lífs um táradal.

Í innsta eðli býr

og áfram manninn knýr

áköf löngun eftir fylling vona.

Og enn má eygja strönd

við ystu sjónarrönd,

þar eru okkar æskudraumalönd.


Atlavíkurminni

Lag: Björn Pálsson

Texti: Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir

Lagið er samið af Birni Pálssyni vélstjóra og

sjómanni á Stöðvarfirði árið 1994. Björn hefur í

gegnum tíðina samið fjölda dægurlaga og sönglaga.

Jónbjörg Eyjólfsdóttir frá Borgarfirði eystra var síðan

fengin til að gera texta við lagið, en þar er vísað til

?fornrar frægðar? Atlavíkur sem samkomustaðar,

með tilheyrandi rómantísku ívafi.

Lagið var áður gefið út með hljómsveitinni á

?Fjörðurinn okkar? árið 2000

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikarar:

Hljómborð: Davíð Þór Jónsson

Saxófónn: Einar Bragi Bragason

Hlýddu með mér á lagið ljúfa,

það sem leikið var þessi kvöld

þegar sólmánaðar seiðandi dýrð

í sálunum hafði völd.

Er við dillandi dragspils óma

slógu draumlyndu hjörtun ótt

marga hlýja, fagra, höfuga sumarnótt.

Þá með lífsþrá í ungum augum

steig hér æskan sinn létta dans

og svo örlynd og dreymin,- dálítið feimin

dreymd' um sinn fyrsta sjans.

Þegar spilað var lagið ljúfa

stundum laumaðist kinn að kinn,

þarna fann mörg dísin draumaprinsinn sinn.

Og í skógarins friðarfaðmi,

þar sem fegurð og yndi býr

bæði laut og bali lokkandi buðu

ljúfustu ævintýr.

Þá var hvíslað í eitthvert eyra:

"Komdu elskan, og fylgdu mér,

ég vil dvelja þessa draumfögru nótt með þér".

Já - með lífsþrá í ungum augum o.s.frv

Ennþá hljómar það, lagið ljúfa,

sem hér leikið var marga nótt

og þar enn má finna örlítið blik

af æskunni er leið svo fljótt.

Aftur lifnar í gömlum glæðum

sem er gaman að blása í,

gömul ævintýri upprifja má á ný.

Er með lífsþrá í ungum augum

steig hér æskan sinn létta dans,

og svo örlynd og dreymin, dálítið feimin

dreymdi um sinn fyrsta sjans.

Inn í skógarins leynilundi

stundum laumast þá hugurinn

því þar fann mörg dísin draumaprinsinn sinn.


Dagbók sjómannsins

Lag: Óðinn G. Þórarinsson

Texti: Einar Georg

Eitt 14 laga Óðins G. Þórarinssonar sem

kom út með hljómsveitinni á diskinum

Við tónanna klið árið 1997.

Í þessu lagi spilar Óðinn G. sjálfur á nikkuna.

Einar Georg kennari og skólastjóri frá Húsavík

semur síðan þennan rómantíska sjómannatexta,

eins og honum einum er lagið.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Söngur: Árni Óðinsson

Gestahljóðfæraleikarar og söngur:

Harmoníka: Óðinn G. Þórarinsson

Raddir: ?Út úr þokunni? Aðalheiður Borgþórsdóttir,

Inga Þorvaldsdóttir, Auðbjörg Guðmundsdóttir

Mandólín: Jón Kr. Arnarson

Bylgjan sem berst á land

ber þessi orð.

Við höfum það harla gott

hérna um borð.

Hávaðarok á hafi

hamlar ei veiðum enn,

hér skipa hvert eitt rúm

harðskeyttir atorkumenn.

Freyðandi foss

fellur að skut.

Aflabrögð okkur spá

uppgripahlut.

Skjótt mun þá skipið fyllast,

skiptum er hætt við dröfn,

sett er á fulla ferð

farið í höfn.

Aðeins vélardynur, annars svo hljótt

óðum lægir nú sjó.

Lítið þorp á ströndu lýsir um nótt

lífið sefur í ró.

Þarna í landi allt ég þekki svo vel

þekki fólkið og skil.

Það er hátíð þegar heima ég dvel

og ég hlakka til.


Inga Stína

Lag: Óðinn G. Þórarinsson

Texti: Hákon Aðalsteinsson.

Hér er á ferðinni eitt af 14 lögum Óðins G.

Þórarinssonar sem kom út með hljómsveitinni

á diskinum Við tónanna klið árið 1977.

Hér er um að ræða eitt af yngri lögum Óðins G.

Hákon Aðalsteinsson hinn þekkti hagyrðingur frá

Vaðbrekku á Jökuldal gerði síðan þennan glettna

texta við lagið.

Þess má geta að árið 1996 vann hljómsveitin ásamt

Hákoni og góðum liðsauka, dagskrá sem byggði á

kveðskap og sagnalist skáldsins, en fjöldi sýninga

voru orðnar 28 talsins víða um land, þegar upp var staðið.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikur:

Hljómborð: Einar Bragi Bragason

Viðmjúk golan vermir fjallasalinn,

vorið breiðist yfir land og sjó.

Niður kletta þeytist glettin, lítil falleg lind,

læðist skýjaklakkur bak við gráan fjallatind.

Hvönnin vex á lágum lækjarbakka

lyngið prýðir slakka, holt og mó.

Litlum krónum blómin bifa,

biðja þess að fá að lifa

sumarið í fegurð friði og ró.

Inga Stína læðist út í lundinn,

leiftrar sólin heit um fjöllin blá.

Vorgolan í laufkrónunum léttan stígur dans,

liggur hún í grasinu og bíður unnustans.

Þar sem hana dýrðarstundir dreymir,

í dagsins önn með brjóstið fullt af þrá.

Þar sem ylur kærleiks kossa

kveikir heitan ástarblossa

og ljúfa þrá í allt sem ekki má.

Góðar stundir oftast taka enda,

því enginn kann á hamingjunni skil.

Sumir hafa í gleði sinni faðmað heldur fast,

farið út í grænan lund og skynditrúlofast.

Inga Stína hnuggin situr heima

hlýjar sér við minninganna yl.

Því nú er hún að fitna að framan

og finnst þetta ekki lengur gaman,

unnustinn er farinn fjandans til.


Þú ert ung (Þekking heimsins)

Lag: Gylfi Gunnarsson

Texti: Valgeir Sigurðsson

Þetta lag semur Gylfi 1964 en það er vel

þekkt á Austurlandi og víðar. Gylfi var áður

m.a. í hinum velþekktu hljómsveitum Einsdæmi

sem starfaði á Seyðisfirði, Þokkabót o.fl hljómsveitum.

Hann er nú skólastjóri Tónlistarskóla Seltjarnarness.

Textinn er eftir Valgeir Sigurðsson (f. 1924 d.1995)

sem um langt árabil var kennari á Seyðisfirði.

Valgeir samdi fjölda þekktra dægurlagatexta.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar.

Gestahljóðfæraleikarar og söngur:

Söngur: Sesselja Ósk Friðjónsdóttir.

Rafgítar, hljómborð, röddun: Brynleifur Hallsson.

Rafgítar: Hlynur Guðmundsson.

Þú ert ung og ennþá ekki

þekkir heimsins tál.

Vertu gætin, varast skaltu

viðsjál leyndarmál

við Pétur og Pál.

Vita skaltu vina litla

veröldin er hál.

Fyrirheit og fagurgali

fanga marga sál

og bera' na á bál.

Ekki skaltu láta angurgapa

æskuvonum þínum glepja sýn.

Ef þú skyldir áttum réttum tapa

skaltu undireins koma til mín.


Þú skríður fyrst á fjórum.

Lag: Óðinn G. Þórarinsson

Texti: Einar Georg

Hér er enn eitt samstarfsverkefni þeirra

Óðins G. Þórarinssonar frá Fáskrúðsfirði

og Einars Georgs, kennara og skólastjóra

frá Húsavík. Þetta lag kom áður út með

hljómsveitinni á diskinum Við tónanna klið

árið 1997.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Klarinettur: Daníel Friðjónsson

Hljómborð: Eyþór Hannesson

Um langa dimma daga

ég dapur stundum verð,

yfir því hve ævi manns

er undarlega gerð.

Með hraða ljóssins líða

öll lífsins bestu ár,

að hausti heilsar ellin

og hrímgar okkar brár.

Þú skríður fyrst á fjórum,

en fljótur kemst á legg,

á stuttum fótum staulast um

og styður þig að vegg.

Á manndómsárum mikið

þú mæðist framagjarn,

aldurhniginn ertu

aftur lítið barn.

Hér áður fyrr var eðlið

af allri depurð snautt,

og þér að segja þá ég finn

að það er ekki dautt.

Ef lít ég ljúfar meyjar

þá lifnar yfir mér,

ég veit samt ekki vinur

vegna hvers það er.


Sumarást

Lag: Magnús Bjarni Helgason

Texti: Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir

Lagið var áður gefið út með hljómsveitinni á ?Fjörðurinn okkar?

árið 2000, en Magnús Bjarni sá um útgáfu á þeim diski

og á heiður skilið fyrir það framtak. Þar voru gefin út 19 lög sem á

einn eða annan hátt tengjast Borgarfirði eystra.

Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir frá Borgarfirði eystra gerði síðan textann

sem vísar til árlegrar hátíðar Borgfirðinga eystri, þ.e.a.s.

?Álfaborgarséns? sem haldin er um Verslunarmannahelgina.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikur:

Hljómborð: Davíð Þór Jónsson

Saxófónn: Einar Bragi Bragason

Gítar: Brynleifur Hallsson

Þegar lóan kemur svífandi um sæinn,

þegar sunnanþeyrinn strýkur mér um kinn

vaknar þrá mín heit, og blíða, frjálsa blæinn

læt ég bera kveðju heim í fjörðinn þinn.

Því ég veit að yfir fjöllin blærinn flýgur

og í faðmi sínum ber hann ennþá vor,

svo að upp úr jörðu ilmur bráðum stígur

það er ilmur lífs er þiðna vetrar spor.

Þegar fríið hefst ég ferðum til þín hraða,

yfir fjöll og heiðar svíf á skammri stund,

því að minningarnar lokka mig og laða

á hinn lengi þráða góðra vina fund.

Er ég hitti þig á ný

þá er hvergi á lofti ský

og ég horfi sæll í björtu augun þín.

Ég á "sjensinn" sveifla mér

og þar svíf í dans með þér,

þú ert sumarást og hjartans vina mín.

Þegar fríi lýkur brátt ég hverf til baka,

en í brjósti mínu lifir von um það

að þú ótal nætur viljir með mér vaka

kæra vina mín, á þessum sama stað.


Draumaveröld

Lag: Þorlákur Friðriksson

Texti: Helgi Seljan

Hér kemur annað lag og texti eftir þá bræður, Þorlák Friðriksson

Skorrastað í Norðfjarðarsveit og Helga Seljan fyrrverandi alþingismann

Austfirðinga. Sjá umfjöllun um ?Ljósbrot? fyrr á diskinum.

Lagið hlaut 1. verðlaun í lagakeppni H.F.H. árið 1993 og kom út með

hljómsveitinni á Austfirskum staksteinum 2 árið 2003.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikarar:

Harmoníka, orgel: Ágúst Ármann Þorláksson

Trompet: Bjarni Freyr Ágústsson.

Slagverk: Karl Petersen, Brynleifur Hallsson

Gítar: Brynleifur Hallsson

Feginn vildi ég komast til þín hvar sem það nú er

koss af mjúkum vörum glaður þiggja.

Himnasælu finna enn í faðminum hjá þér

frið og ró í sálu minni tryggja.

Draumaveröld fagra vil ég eiga ástin mín

einn með þér svo fjarri heimsins glaumi.

Innst í húmsins veröld merlar ætíð myndin þín

máist ei í tímans þunga straumi.

Svona læt ég hugann reika og trega liðna tíð

tendra eld í lúnu, döpru hjarta.

Eitt er víst að minningin er ennþá björt og þýð

unaðskennd hún veitir töfrabjarta.

Helgi Seljan hefur einnig gert annan texta við þetta sama lag.

Fylgir hann hér einnig með, enda höfundi kærari að eigin sögn,

en hinn textinn mun þó vera þekktari við þetta lag.

Kyrrðin

Kyrrðin djúpa færir mínu hjarta frið og ró

fjarri byggð er löngum gott að una.

Lágnættisins dularseiður löngum til sín dró

ljúft er það að rifja upp og muna.

Ungur sveinninn átti þarna dýra drauminn sinn

dásemd var að búa í þeim heimi.

Ennþá töfrar lyngs og lindar hrífa huga minn

heillaður ég flestu öðru gleymi.

Þyngjast spor og árafjöldinn sífellt sækir á

seiður fjallakyrrðar ennþá brennur.

Þangað vil ég leita þegar hinzta aldan há

hefst og kveðjustundin mikla rennur.


Ég fer á séns.

Lag og texti: Magnús Bjarni Helgason.

Magnús Bjarni frá Borgarfirði eystra semur lag og

texta í tilefni ?Álfaborgarséns? 2005, hinnar árlegu

Verslunarmannahelgarhátíðar Borgfirðinga eystra.

Magnús leitaði til hljómsveitarinnar með upptöku

á laginu.

Lagið hefur ekki verið gefið út áður.

Bassi, söngur: Friðjón Jóhannsson

Trommur: Benedikt Brynleifsson

Gítar: Brynleifur Hallsson

Píanaó orgel: Agnar Már Magnússon

Nú við helgina tökum hér með trukki

gamlir vinir hér koma og skemmta sér.

Kátt nú djömmum með tilheyrandi sukki

því þessi helgi af öllum öðrum ber.

Því hér við hittum það fólk sem bjó hér forðum

í bland við það sem að ennþá lifir hér.

Já slíkum stundum ég fæ ei lýst með orðum

hér eilíf vinátta aldrei burtu þver.

Fjör nú ólgar hér létt í öllum æðum

allir una við sönginn, gleði og glens.

Litla þorpið allt er í nýjum klæðum

þegar haldinn er Álfaborgarséns.

Hérna ungir og aldnir saman una

því að vinsemd og friður ríkir hér.

Margar stundir sem ljúft er mér að muna

endurfæðast og lifna á ný hjá mér.

Helgin líður og senn hún enda tekur

hljóðnar söngur og gestir tínast burt.

Hann að ári hér sami hópur vekur

með því fólki sem enn er heima kjurt.

Þá aftur komum við heim á fornar slóðir

og að venju við tökum saman lag.

Meðan sólin úr hafi sendir glóðir

þar sem syngjum við saman fram á dag.

Ávallt sénsinn er inn og til sín dregur

sæg af fólki sem kann að skemmta sér.

Borgarfjörður svo hlýr og vinalegur

segir: Velkominn vertu aftur hér

....segir velkominn vertu vinur hér.


Ást til sölu

Lag: Stefán Jóhannsson

Texti: Gunnlaugur Ólafsson

Stefán Jóhannsson sem starfar í dag við

Háskólann á Akureyri semur þetta lag um 1975,

en á þeim árum var hann skólastjóri við

Alþýðuskólann á Eiðum og kennari við M..E.

Þeir Stefán og textahöfundurinn Gunnlaugur

Ólafsson frá Grímsstöðum á Fjöllum ,

nú bóndi á Hallgilsstöðum á Langanesi, störfuðu

saman í hljómsveitunum Raflost og Straumrof

á þessum tíma. Lagið var mikið spilað á

Austurlandi á árunum 1975 og fram yfir 1980.

Lagið hefur ekki komið út áður .

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikur:

Gítar, hljómborð: Brynleifur Hallsson

Í fyrrinótt var ég á ferð

er ég fann þig, við drukkum saman dús.

Frá þessu segja ég verð

það fór illa og hjarta mitt er fullt af blús.

Þú gafst fyrirheit fögur

ég fylgdi þér ákafur inn á bar,

þar ljúffengur lögur

brátt lífgaði uppá samræðurnar.

Þú sagðir mér sögur,

um sannleikann, lífið og syndirnar

og uppúr hálffjögur

ég ölvaður af ást og víni var.

Það sá ekki teljandi á þér

þó að tæmt hefðir með mér viskíflöskuna.

Þú hvíslaðir hvetjandi að mér:

?Hvað með afslátt á alla heilu nóttina? ?

Öll mín ást varð að engu

er ég uppgötvaði þitt ævistarf,

ég var táldreginn drengur

mín draumsýn um þig það sem enginn þarf.

Þetta er ferlegur fjandi,

ég fer á barinn sem oftar, því er nú ver,

ekki í ofgóðu standi,

mér gengur afleitlega að gleyma þér.


Á æskuslóðum

Lag: Björn Pálsson

Texti: Hrönn Jónsdóttir

Lag og texti var frumflutt 13. júlí 1996 á

uppeldissystkinamóti í Hamraborg við Berufjörð.

Það var Elís P. Sigurðsson Breiðdalsvík

sem fékk þau Hrönn Jónsdóttur hagyrðing frá

Vopnafirði, sem verið hefur búsett á Djúpavogi um

árabil og Björn Pálsson lagasmið og sjómann á

Stöðvarfirði til verksins.

Lagið kom áður út á Austfirskum staksteinum 2 árið 2003.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikarar:

Rafgítar, röddun: Brynleifur Hallsson

Hljómborð: Davíð Þór Jónsson

Slagverk: Karl Petersen

Um júlídag er sumarvindar syngja

í sælum róm við okkar kæru jörð,

við skulum saman sálir okkar yngja

á æskuslóðum hér við Berufjörð.

Hér undum við og byggðum skýjaborgir

sem brotnað hafa kannski ein og tvær

því ævin ber oss sælu jafnt og sorgir,

í sól og regni lífsins blómið grær.

Í leik og starfi liðu bernskustundir

sá lærdómstími allra bestur er,

er mamma og pabbi búa börnin undir

þá brautargöngu sem að höndum fer.

Með trú og dug og vilja í veganesti

og vinarhug sem ríkti okkur hjá

var okkur tekið eins og góðum gesti

á gönguferð um lífið til og frá.

Og fossinn heima fellur enn til sjávar

hann flytur okkur sama lag og fyrr,

og yfir sjónum svífa hljóðir mávar

hér sýnist tíminn hafa staðið kyrr.

En aðra sögu segja gráu hárin

það silfurskart er haustið okkur ber,

þó standa enn í ljóma æskuárin

sú endurminning kærust okkur er.


Fjörðurinn okkar

Lag og texti: Magnús Bjarni Helgason

Þetta lag Magnúsar Bjarna Helgasonar frá Borgarfirði

eystra kom út með hljómsveitinni á diskinum

?Fjörðurinn okkar? árið 2000 og er þetta lag

titillag þeirrar útgáfu.

Á þeim diski eru 19 lög sem hafa að geyma lög og/eða

texta Borgfirðinga eystri.

Segja má að lagið hafi verið ?Álfaborgarsénslagið?

árið 2000.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikur:

Saxófónar, orgel: Einar Bragi Bragason

Fjörðurinn okkar er friðsæll og hlýr

við öll erum sammála um það.

Því hvergi í heimi finnum við enn

fegurri og yndislegri stað.

Nú komum við saman og fögnum hér öll

en enginn af gleði verður lens.

Um helgina syngjum og dönsum um völl

og upplifum Álfaborgarséns.

Já komdu í Fjörðinn því fjörið er hér

og upplifðu ævintýr,

því enginn sem einn um Álfaborg fer

makalaus þaðan snýr.

Finndu þar skútann Dyrfjalli mót

eða lautina sunnan við

og sjálfkrafa rómantíkin þá tekur við.

Velkominn vinur hver sem þú ert,

þú unir þér vel á þessum stað.

Ungir sem aldnir mætum hér öll

og helgina fílum hreint í spað.

Markaður, sigling, ganga um fjöll

og árvissan dansleik bjóðum við.

Svo bíður þín Borgin í stígandi sól,

þar áttu þér séns og unaðsfrið.


Tjörulagið

Lag: Stefán Bragason, Jóhann G. Jóhannsson

Texti: Stefán Bragason

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Hljómborð: Eyþór Hannesson

Gestahljóðfæraleikur:

Saxófónn, píanó: Einar Bragi Bragason

Stefán Bragason frá Surtsstöðum í Jökulsárhlíð

semur lag og texta árið 1985. Viðlagið fékk Stefán ?lánað?

úr maltauglýsingu sem Jóhann G. Jóhannsson samdi stef við,

enda eru þeir báðir skráðir sem höfundar lagsins.

Lag og texti var samið í tilefni af reyklausri samkomu sem haldin

var í Samkvæmispáfanum í Fellabæ og mun að öllum líkindum

vera ein sú fyrsta á landinu með því sniði. Þar var lagið

frumflutt af Mánatríóinu sem spilaði mikið á þeim

ágæta stað. Meðlimir í Mánatríói voru Stefán Bragason,

Þorvarður Bessi Einarsson og Friðjón Jóhannsson.

Hugsaðu þér lungun full af hryglu og skít

hrum og tjörusoðin, næstum gjörónýt

og flöskurnar með súrefni, er fylgja verði þér.

Um hjartað sem að barðist þér í brjósti ótt

en bilað gæti af álaginu strax í nótt

og kransæð fulla af stíflu og krabba er enginn sér.

Þú getur ekki lengur sýnt þann gráa leik

að ganga hér um salina og vaða reyk

og blása honum frá þér eins og biluð díselvél.

Menga þannig loftið fyrir mér og þér

í mósku þeirri sjálfsblekkingin unir sér

en bíddu ekki eftir því að birti upp það él.

Dreptu í, þú drepst ekki af því.

Dreptu í, það reynist þér vel.

Taktu ei reyk, þá taparðu ei leik.

Taktu ei reyk, það farsælt tel.

Heilnæmt loft, helst nógu oft.

Heilnæmt loft, dragðu að þér.

Vertu hress, varastu stress.

Vertu hress, það líkar mér.

Þig losa skalt við reykinn svo þér líði vel

og líkama þinn hreyfa meir´en öðuskel

þú finnur þróttinn vaxa ef þú forðast nikótín.

Þó kistunagla langi þig að kveikja í

þá kominn ertu í 100 ára tóbaksfrí

ef freistinguna stenstu, þá framtíðin er þín.


Heillandi vor

Lag: Óðinn G. Þórarinsson

Texti: Þorsteinn Sveinsson

Hér er eitt af 14 lögum Óðins G. Þórarinssonar

á þessari útgáfu, en hljómsveitin gaf út diskinn

Við tónanna klið árið 1997 með 19 lögum eftir

Óðinn G.

Textahöfundurinn Þorsteinn Sveinsson

(f. 1913 d. 1981) var lengst af skrifstofustjóri hjá

Húsameistara ríkisins í Reykjavík.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikarar og söngur:

Söngur: Aðalheiður Borgþórsdóttir

Saxófónar: Einar Bragi Bragason

Lýsast óðum langar nætur

ljósið fyllir hvert eitt spor,

dimma þverr og döggin grætur,

dagsól veikum eykur þor.

Út við fjallsins fögru rætur

fjólan vex í klettaskor.

Eins í okkar hjarta

ómar vorið bjarta,

ástarinnar unaðsljúfa vor.

Anga fögru blómin bláu

blíðlynd kvakar fuglahjörð,

brosir sól við býli lágu,

blikar dögg um grænan svörð.

Blítt skal vagga barni smáu

blessuð sólin heldur vörð.

Milli grænna greina

göngum vegu beina,

gyllir sólin gróðursæla jörð.


Manstu

Lag: Gísli Jónatansson

Texti: Hákon Aðalsteinsson

Lagið var frumflutt á hjónaballi Fáskrúðsfirðinga 1997.

Þess má geta að eftir Gísla er m.a. lagið ?Hjónaball? sem

alltaf er sungið sem fjöldasöngslag á hjónaböllum þar.

Það hefur ósjaldan komið í hlut Gísla Jónatanssonar að vera

veislustjóri á samkomum, en hann hefur verið kaupfélagsstjóri

hjá Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga og fyrirtækjum því tengdu

frá árinu 1975.

Textinn er eftir hinn landsþekkta Hákon Aðalsteinsson

hagyrðing og skógarbónda að Brekkugerðishúsum í Fljótsdal.

Gefnar hafa verið út ljóðabækur, barnabækur, smásögur ofl.

eftir hann.

Lagið kom áður út á Austfirskum staksteinum 2 árið 2003.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikur:

Harmoníka: Ágúst Ármann Þorláksson

Þegar koma þrautastundir

þungar eins og blý

felur, klæðir klett og hóla

koldimmt þokuský.

Gömul atvik mætast mörg

við minninganna torg

laða fram og leita uppi

löngu gleymda sorg.

Manstu þegar bjartast brosti

birta sálar ranns

þá var eins og guð og gæfan

gleddi huga manns.

Allir geta eflaust fundið

andans ljúfa frið

eins og þýðan þrastasöng

og þúsund vatna nið.

Geymdu ekki löngu liðið

líf í huga þér

enginn maður þarf að þreyja

það sem liðið er.

Þú skalt ekki þjóna lengur

því sem áður var

settu heldur sálu þinni

sýn til framtíðar.

Manstu þegar bjartast brosti

birta sálar ranns

þá var eins og guð og gæfan

gleddi huga manns.

Allir geta eflaust fundið

andans ljúfa frið

eins og þýðan þrastarsöng

og þúsund vatna nið.


Á fornum slóðum

Lag: Magnús Bjarni Helgason

Texti: Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir

Lagið semur Magnús Bjarni árið 1993 og

sendir í lagakeppni Harmoníkufélags

Fljótsdalshéraðs. Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir

semur síðan sannkallaðan ættjarðaróð tengdan

Borgarfirði eystra, en bæði Magnús Bjarni og

Jónbjörg eru burtfluttir Borgfirðingar.

Lagið kom áður út með hljómsveitinni á

Austfirskum staksteinum árið 1996.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikur og söngur:

Mandólín: Charles Ross

Röddun: Aðalheiður Borgþórsdóttir

Þverflauta: Einar Bragi Bragason

Ég á mér stað þar sem ég uni mér tíðum,

ég á mér stað og hérna lyngbúinn grær.

Ég vitja hans í vorsins unaði blíðum

er vaggar rótt hinn blái síkviki sær.

Um æðar mér

nú finn ég unaðinn streyma,

hérna átti ég heima

ilmur jarðar er enn svo ljúfur hér.

Og Álfaborg

sem fagnar ætíð mitt hjarta

hulduhöllin mín bjarta

ennþá óhögguð er.

Og lindin tær sem hér í lyngmónum kliðar

á ljúfan keim sem enn er hugþekkur mér.

Þá ljósu veig ég þrái löngum að teyga

úr lófa-skál er hægt að vörum ég ber.

Við hafsins nið

er sælt að sofna og dreyma,

það er söngurinn heima

er mér fylgir á fjarlæg draumasvið.

Um gluggann minn

í kvöld hann kemur með blænum

eins og kveðja frá sænum

eftir árlanga bið.

Hér á ég spor og hér ég ann hverjum steini,

mitt æskuvor hérna fagnandi leið.

Ég burtu fór, en ætíð lifði í leyni

hin ljúfa kennd til alls er heima mín beið.

Um Dyrfjalls tind

er enn sem dansi á kveldi

blik af deyjandi eldi

en að morgni sem mursteri hann skín

í sólarglóð.

Ég mun í sál minni geyma

fegurð sumarsins heima.

Hér er bernskubyggð mín.


Það var í maí.

Lag: Óðinn G. Þórarinsson

Texti: Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir

Eitt af 14 lögum Óðins G. Þórarinssonar

á þessari útgáfu, en lagið kom áður út

með hljómsveitinni árið 1997 á diskinum

Við tónanna klið. Óðinn fékk síðan

Jónbjörgu S. Eyjólfsdóttur frá Borgarfirði

eystra til að gera texta við lagið fyrir þá útgáfu.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikur og söngur:

Söngur: Ragnhildur Rós Indriðadóttir

Þverflauta, hljómborð: Einar Bragi Bragason

Það var í maí, þá vorið hló

og vakti upp af svefni drauma alla,

við leiddumst ein í ljúfri aftanró

og lífsins fyriheit í öllu bjó.

Þau friðsælu og fögru kveld

við fundum vorið sjálft á okkur kalla,

það kveikti hlýjan unaðslegan eld

og örlög tveggja voru saman felld.

Og lífið gefur börnum sínum bros og tár,

bæði er það gömul saga og ný,

en jafnvel þótt mér gæfan veiti ótal ár

aldrei mun ég gleyma vori því.

Það var í maí, og vorið enn

á vegi stráir nýjum fyrirheitum,

þar ennþá tengjast örlög tvenn og þrenn

er undur lífsins heilla fljóð og menn.


Grænkandi dalur

Lag: Anna G. Helgadóttir

Texti: Sveinn Bjarman þýddi

Sveinn Bjarman (f.1890 d. 1952) þýddi þennan texta.

Sveinn var aðalbókari K.E.A. á Akureyri frá 1928

til dauðadags. Sveinn samdi nokkuð af textum auk þess

að þýða texta og staðfæra. Hann lærði snemma á hljóðfæri og

útsetti lög fyrir kóra og kvartetta.

Anna G. Helgadóttir (f.1898 d. 1988) frá Borgarfirði eystra

semur síðan lag við hið þekkta ljóð Sveins ?Grænkandi dalur?

Anna var um tíma organisti við Bakkagerðiskirkju.

Eftir hana hefur varðveist nokkuð af lögum.

Lagið var gefið út með hljómsveitinni á

diskinum ?Fjörðurinn okkar? árið 2000.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar

Gestahljóðfæraleikarar:

Harmoníka: Ágúst Ármann Þorláksson

Írsk flauta: Einar Bragi Bragason

Grænkandi dalur góði

gleði mín býr hjá þér,

þar á ég það í sjóði

sem þekkast flestum er.

Blæs mér um vanga blærinn þinn

blessaður æskuvinurinn

grænkandi dalur góði,

gleði mín býr hjá þér.

Við skulum sitja saman

syngdu mér lögin þín.

Guð minn, hve nú er gaman !

Glampandi sólin skín.

Vina mín kæra, veistu hvað ?

Vorið er okkar, munum það.

Við skulum sitja saman

syngdu mér lögin þín.

Grænkandi dalur góði

gróanda lífsins skjól,

vafinn í vorsins ljóði

vermdur af kveldsins sól.

Brosir við óttu aftanblær

angandi gróður döggin þvær,

grænkandi dalur góði

gróanda lífsins skjól.


Höfundar laga ?44 íslensk alþýðu dans- og dægurlög?

X Óðinn G. Þórarinsson

X Eyþór Hannesson

X Stefán Bragason

X Birgir Björnsson

X Gylfi Gunnarsson

X Garðar Harðarson

X Magnús Bjarni Helgason

X Ingi T. Lárrusson

X Þorlákur Friðriksson

X Daníel Friðjónsson

X Hreggviður M. Jónsson

X Reynir E. Kjerúlf

X Bragi Gunnlaugsson

X Björn Pálsson

X Gísli Jónatansson

X Anna G. Helgadóttir

X Snorri Evertsson

X Aðalsteinn Ísfjörð

X Stefán Jóhannsson

X Þorvaldur Friðriksson

Höfundar texta ?44 íslensk alþýðu dans- og dægurlög?.

X Magnús Stefánsson

X Þórólfur Friðgeirsson

X Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir

X Ragna S. Gunnarsdóttir

X Sigurðu Ó. Pálsson

X Helgi Seljan

X Sigrún Björgvinsdóttir

X Sigríður Sigurðardóttir

X Hrönn Jónsdóttir

X Hákon Aðalsteinsson

X Sveinn Bjarman

X Loftur Guðmundsson

X Þorsteinn Sveinsson

X Einar Georg

X Magnús Pétursson

X Númi Þorbergsson

X Sólrún Eiríksdóttir

X Elís Kjaran Friðfinnsson

X Guðbrandur Þorkell Guðbrandsson

X Gunnlaugur Ólafsson

X Kristján Ingólfsson

Flettingar í dag: 29
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 17
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 124620
Samtals gestir: 45142
Tölur uppfærðar: 18.4.2021 02:36:47

Tenglar