Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar. Ráðningar og pöntunarsími 862-1403 netfang frjo@simnet.is |
|
Austfirskir staksteinar2Fylgt úr hlaði Það er okkur í Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar mikill heiður og ánægja að hafa fengið leyfi og traust 17 austfirskra laga og textahöfunda, til að vinna og útsetja verk þeirra. Lög þessi hefur rekið á fjörur hljómsveitarinnar með ýmsu móti. Sum laganna eru vinsæl í heimabyggð sem fjöldasöngslög, nokkur hafa verið send í lagakeppni, en í öðrum tilfellum hefur verið leitað til aðila sem vitað er að fengist hafa við lagagerð og þeir beðnir um lag í tilefni útgáfunnar. Í raun er hér um að ræða framhald af útgáfunni "Austfirskir staksteinar". Sá diskur var gefinn út árið 1996 og hafði að geyma verk 15 austfirskra laga og textahöfunda. Sú útgáfa mæltist afskaplega vel fyrir, en það kom hljómsveitinni verulega á óvart að sala á þeim diski var ótrúlega góð á landsvísu, því að í upphafi var aðeins reiknað með nokkuð staðbundinni sölu á Austurlandi. Sama gildir um útgáfuna " Við tónanna klið" árið 1997 sem hafði að geyma 19 lög eftir Óðin G. Þórarinsson frá Fáskrúðsfirði. Þetta gefur okkur kjark til að ráðast í enn eina útgáfu á austfirsku efni, þó er ljóst að áhætta af svona útgáfu er ekki lítil, þar sem mjög kostnaðarsamt er að gera slíkan disk, þ.e. ef sæmilega er vandað til verksins. En með áhuga, vilja og aðstoð aðila sem skilning hafa á varðveislu þessa hluta menningarinnar, er ýmislegt hægt að gera. Á þessum diski eru 15 lög. 10 laganna eru tekin upp á tímabilinu ágúst 2002 - mars 2003, og sá Brynleifur Hallsson á Akureyri um það verk og viljum við þakka honum frábært samstarf í alla staði. Brynleif þekkja margir sem gítarleikara og söngvara m.a. með Hljómsveit Ingimars Eydal, Ljósbrá og mörgum fleiri norðlenskum hljómsveitum. 5 laganna voru áður tekin upp í Stúdio Steinholti á Seyðisfirði árið 2000 af Einari Braga Bragasyni og Magnúsi Bjarna Helgasyni og komu þau út á diskinum "Fjörðurinn okkar " árið 2000. Þessi lög eru hér látin fylgja með endurspiluð að hluta til og endurhljóðblönduð af Brynleifi Hallssyni. Með þessari útgáfu er fjöldi þeirra austfirsku laga sem hljómsveitin hefur náð að varðveita þ.e. áður óútgefin, orðin um 40 talsins. Það er skoðun undirritaðs að verulega vanti á að varðveislu og útgáfu verka alþýðutónlistarmanna og textahöfunda sé sinnt sem skyldi og fullyrða má að gífurlegur fjöldi fólks vítt og breitt um landið á mikið magn af verulega góðu efni, bæði tónlist og textum. Það eru því miður allar líkur á að mikið af þessu efni fari forgörðum, en því verður ekki breytt nema með markvissum björgunaraðgerðum. Það er von okkar að þú lesandi og kaupandi góður hafir nokkra ánægju af útgáfu þessari. Kærar þakkir! Fyrir hönd hljómsveitarinnar, Friðjón Ingi Jóhannsson. Varðandi texta :Allir þeir aðilar sem texta eiga á diskinum hafa yfirfarið sín verk og í nokkrum tilfellum hafa þeir endurbætt þá, þannig að hugsanlegt er að í einhverjum tilvikum hafi fólk heyrt textana öðruvísi, en til að fyrirbyggja deilur um rétta og ranga texta, þá er þetta sem hér stendur lokaniðurstaða höfundanna. Austfirskir staksteinar 2: Upptaka og hljóðblöndun Brynleifur Hallsson Akureyri. Ágúst 2002-mars2003 Austfirskir staksteinar 2: Fimm laganna tekin upp í Stúdio Steinholt á Seyðisfirði 2000 (Ath. getið með textum ) Öll lögin á diskinum eru "handspiluð" þ.e. trommur, slagverk, bassi og önnur hljóðfæri, að undanskildu laginu Ákall no 14 sem er tölvuunnið að hluta (bassi trommur). Tvö laganna eru erlend:" Ákall", þýskt friðarlag og" Nú kemur vorið", færeyskt lag. Útsetningar: Samstarf Danshljómsveitar Friðjóns Jóhannssonar og aðstoðarhljóðfæraleikara. Mastering: Hljóðsmárinn , Gunnar Smári. Helgason Umsjón með fjölföldun erlendis: Myndbandavinnslan ehf, Hátúni 6b. Útlit umslags, filmuvinna: Árni Jóhann Óðinsson og Hanna Gyða Þráinsdóttir, Héraðsprent s/f Egilsstöðum. Ljósmyndir: Framhlið úr Urðardal í Njarðvík, mynd Helgi Arngrímsson. Mynd á diski: Úr Stórurð, mynd Helgi Arngrímsson Bakhlið (grunnur): Úr bókinni "Íslenskt grjót" eftir Hjálmar R. Ragnarsson, með leyfi höfundar. Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar: Mynd Davíð Jens Hallgrímsson. Prófarkalestur: Jónbjörg Eyjólfsdóttir. Útgefandi: Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar. Staksteinar, mai 2003. Heildartími efnis: 51,00 mín. Dreifing: 12 Tónar Skólavörðustíg 15. 12tonarat12tonar.is Öllum þeim aðilum sem komið hafa að verkinu færum við okkar bestu þakkir. Flytjendur: Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar Árni Jóhann Óðinsson: Gítar. Daníel Friðjónsson: Trommur, slagverk, klarínett. Friðjón Ingi Jóhannsson: Bassi, söngur. Aðstoðarhljóðfæraleikarar og söngvarar Ágúst Ármann Þorláksson: Hljómborð, harmoníka. Bjarni Freyr Ágústsson: Trompet, röddun. Brynleifur Hallsson: Gítar, orgel, röddun. Davíð Þór Jónsson: Píanó, orgel. Einar Bragi Bragason: Saxófónar, flautur. Gunnar Ringsteð: Gítar. Hlynur Guðmundsson: Gítar. Aðalheiður Borgþórsdóttir: Röddun. Jóhanna Seljan Þóroddsdóttir: Söngur Sesselja Ósk Friðjónsdóttir: Söngur. "Eldhúskórinn á Skriðubóli": Söngur. Eilítið um hljómsveitina .Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar var stofnuð haustið 1995 og eru sömu aðilar í hljómsveitinni nú og voru þá. Á tímabilinu 1996-1997 starfaði Eyþór Hannesson hljómborðs og harmoníkuleikari frá Borgarfirði eystra með hljómsveitinni, en á þeim tíma eru diskarnir "Austfirskir staksteinar " (1996) og "Við tónanna klið" (1997) gefnir út. Markmið hljómsveitarinnar er ekki flókið, en það er að skemmta fólki á dansleikjum með fjölbreyttri danstónlist, þar sem einfaldleikinn ræður ríkjum, en þar að auki, að varðveita alþýðutónlist með útgáfu sem þessari. Hljómsveitin hefur spilað vítt og breitt um landið, en er þó dæmigerð "frítímahljómsveit". Aðalstörf hljómsveitarmeðlima eru: Friðjón Jóhannsson mjólkurfræðingur, starfar hjá Mjólkurbúi Flóamanna, Árni Jóhann Óðinsson líffræðingur, starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Austurlands og Daníel Friðjónsson tónlistarkennari við Tónlistarskóla Mosfellsbæjar ofl. stöðum Með kveðju Friðjón Jóhannsson Gilsbakkavegi 13 600 Akureyri Sími 862 1403 póstfang frjoatli.is Austfirskir staksteinar 2 Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar Árni Jóhann Óðinsson gítar, Daníel Friðjónsson trommur, slagverk, klarinett, Friðjón Ingi Jóhannsson bassi, söngur. Íslensk alþýðu danstónlist Efni 17 austfirskra laga og textahöfunda Aðstoðarhljóðfæraleikarar: Ágúst Ármann Þorláksson, Bjarni Freyr Ágústsson, Brynleifur Hallsson, Davíð Þór Jónsson, Einar Bragi Bragason, Gunnar Ringsteð, Hlynur Guðmundsson, Karl Petersen .Söngur: Aðalheiður Borgþórsdóttir, Jóhanna Seljan Þóroddsdóttir, Sesselja Ósk Friðjónsdóttir 1. Ljósbrot Lag: Þorlákur Friðriksson Texti: Helgi Seljan 3,232. Dansinn Lag: Daníel Friðjónsson Texti: Jónbjörg Eyjólfsdóttir 3,143. Sigling á Lagarfljóti Lag: Reynir E . Kjerúlf Texti: Sigrún Björgvinsdsóttir 3,064. Fyrr og nú Lag: Bragi Gunnlaugsson Texti: Sólrún Eiríksdóttir 4,195. Lífsganga Lag: Daníel Friðjónsson Texti: Sigríður Sigurðardóttir 4,276. Draumaveröld Lag: Þorlákur Friðriksson Texti: Helgi Seljan 3,157. Á æskuslóðum Lag: Björn Pálsson Texti: Hrönn Jónsdóttir 3,53anstu 8. M Lag: Gísli Jónatansson Texti: Hákon Aðalsteinsson 3,099. Þú ert ung (Þekking heimsins) Lag: Gylfi Gunnarsson Texti: Valgeir Sigurðsson 3,1710. Atlavíkurminni Lag: Björn Pálsson Texti: Jónbjörg Eyjólfsdóttir 3,4011. Héraðsrúmban Lag: Höfundur óþekktur (gamalt lag) Texti: Sigurður Ó. Pálsson 1,5712. Grænkandi dalur Lag: Anna G. Helgadóttir Texti: Sveinn Bjarman þýddi 3,0813. Sumarást Lag: Magnús Bjarni Helgason Texti: Jónbjörg Eyjólfsdóttir 3,2214. Ákall Lag: Ralph Siegel Texti: Jónbjörg Eyjólfsdóttir 3,0115. Nú kemur vorið Lag: Birni Dam (Á bátadekkinu) Texti: Sigurður Ó. Pálsson 3,49Útgefandi: Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar. Staksteinar mai 2003 Gilsbakkavegi 13 Akureyri. Sími 862 1403 Netfang frjoat li.is Dreifing: 12 Tónar Skólavörðustíg 15. Sími 511 5656, netfang 12tonarat12tonar.is Manstu Lag: Gísli Jónatansson Texti: Hákon Aðalsteinsson Lagið var frumflutt á hjónaballi Fáskrúðsfirðinga 1997. Þess má geta að eftir Gísla er m.a. lagið "Hjónaball" sem alltaf er sungið sem fjöldasöngslag á hjónaböllum þar. Það hefur ósjaldan komið í hlut Gísla Jónatanssonar að vera veislustjóri á samkomum, en hann hefur verið kaupfélagsstjóri hjá Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga og fyrirtækjum því tengdu frá árinu 1975. Textinn er eftir hinn landsþekkta Hákon Aðalsteinsson hagyrðing og skógarbónda að Brekkugerðishúsum í Fljótsdal. Gefnar hafa verið út ljóðabækur, barnabækur, smásögur ofl. eftir hann. Þegar koma þrautastundir þungar eins og blý felur, klæðir klett og hóla koldimmt þokuský. Gömul atvik mætast mörg við minninganna torg laða fram og leita uppi löngu gleymda sorg. Manstu þegar bjartast brosti birta sálar ranns þá var eins og guð og gæfan gleddi huga manns. Allir geta eflaust fundið andans ljúfa frið eins og þýðan þrastarsöng og þúsund vatna nið. Geymdu ekki löngu liðið líf í huga þér, enginn maður þarf að þreyja það sem liðið er. Þú skalt ekki þjóna lengur því sem áður var settu heldur sálu þinni sýn til framtíðar. Manstu þegar bjartast brosti birta sálar ranns þá var eins og guð og gæfan gleddi huga manns. Allir geta eflaust fundið andans ljúfa frið eins og þýðan þrastarsöng og þúsund vatna nið. Söngur, bassi: Friðjón Ingi Jóhannsson. Gítar: Árni Jóhann Óðinsson. Trommur: Daníel Friðjónsson. Harmoníka: Ágúst Ármann Þorláksson. Á æskuslóðum Lag: Björn Pálsson Texti: Hrönn Jónsdóttir Lag og texti var frumflutt 13. júlí 1996 á uppeldissystkinamóti í Hamraborg við Berufjörð. Það var Elís P. Sigurðsson Breiðdalsvík sem fékk þau Hrönn Jónsdóttur hagyrðing frá Vopnafirði, sem verið hefur búsett á Djúpavogi um árabil og Björn Pálsson lagasmið og sjómann á Stöðvarfirði til verksins. Um júlídag er sumarvindar syngja í sælum róm við okkar kæru jörð við skulum saman sálir okkar yngja á æskuslóðum hér við Berufjörð. Hér undum við og byggðum skýjaborgir sem brotnað hafa kannski ein og tvær því ævin ber oss sælu jafnt og sorgir, í sól og regni lífsins blómið grær. Í leik og starfi liðu bernskustundir, sá lærdómstími allra bestur er, er mamma og pabbi búa börnin undir þá brautargöngu sem að höndum fer. Með trú og dug og vilja í veganesti og vinarhug sem ríkti okkur hjá var okkur tekið eins og góðum gesti á gönguferð um lífið til og frá. Og fossinn heima fellur enn til sjávar, hann flytur okkur sama lag og fyrr, og yfir sjónum svífa hljóðir mávar, hér sýnist tíminn hafa staðið kyrr. En aðra sögu segja gráu hárin það silfurskart er haustið okkur ber, þó standa enn í ljóma æskuárin sú endurminning kærust okkur er. Söngur, bassi: Friðjón Ingi Jóhannsson. Gítar: Árni Jóhann Óðinsson. Trommur, slagverk: Daníel Friðjónsson. Rafgítar, röddun: Brynleifur Hallsson. Hljómborð: Davíð Þór Jónsson. Slagverk: Karl Petersen. Sigling á Lagarfljóti Lag: Reynir E. Kjerúlf Texti: Sigrún Björgvinsdóttir Reynir E.Kjerúlf frá Vallholti í Fljótsdal starfaði á sínum tíma með "Fljótsmönnum", einni fyrstu "bítlahljómsveit" á Héraði, einnig starfaði hann í Tónkór Fljótsdalshéraðs. Reynir hefur oft sent lög í lagakeppni, en þetta lag hlaut 1. verðlaun í lagakeppni Harmoníkufélags Héraðsbúa árið 2000. Sigrún Björgvinsdóttir á Egilsstöðum hefur gert nokkuð að því að semja ljóð, texta og smásögur. Eftir hana hafa komið út barnabækurnar "Perla" og "Ég er kölluð Día" . Sigrún er einnig vel þekkt fyrir handverk sitt m.a "flókamyndir" sem gerðar eru úr íslenskri ull. Lagið kom upphaflega út á Austfirskum staksteinum 2. árið 2003 Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar Daníel Friðjónsson Klarinettur. Gestahljóðfæraleikarar: Gítar: Brynleifur Hallsson. Hljómborð: Davíð Þór Jónsson. Slagverk: Karl Petersen. Það er hlýr og fagur dýrðardagur döggvot jörðin brosir hlýju sumrinu mót, Fljótsdalshérað sveipað inn í sindrandi grænan skóg. Sólgullið skín Lagarfljót. Og við siglum tvö í sunnanblænum, svona getur lífið verið elskendum gott. Í ljósu hári leikur blærinn, ljómi úr augum skín, loks hefur ræst óskin mín. Þannig getur orðið okkar ævi eins og draumasigling yfir glitrandi unn. Reynum bæði að halda í þessa hamingjuljúfu stund hugsa og þrá nýjan fund. Blikar báruna á bjart er yfir að sjá, fleyið okkar það líður landi grænu frá. Svífum nú saman sæl, um þessa skínandi slóð, gleði, bros og gaman greypt í minninga sjóð. Þú ert ung (Þekking heimsins)Lag: Gylfi Gunnarsson Texti: Valgeir Sigurðsson Þetta lag semur Gylfi 1964 og er það vel þekkt á Austurlandi og víðar. Sérstaklega er lagið þekkt meðal "gamalla" Eiðanema. Gylfi var áður m.a. í hinum velþekktu hljómsveitum Einsdæmi sem starfaði á Seyðisfirði, Þokkabót o.fl hljómsveitum. Hann er nú skólastjóri Tónlistarskóla Seltjarnarness. Textinn er eftir Valgeir heitinn Sigurðsson sem um langt árabil var kennari á Seyðisfirði, en eftir hann liggur fjöldi þekktra dægurlagatexta. Þú ert ung og ennþá ekki þekkir heimsins tál. Vertu gætin varast skaltu viðsjál leyndarmál við Pétur og Pál. Vita skaltu vina litla veröldin er hál. Fyrirheit og fagurgali fanga marga sál og bera' na á bál. Ekki skaltu láta angurgapa æskuvonum þínum glepja sýn. Ef þú skyldir áttum réttum tapa skaltu undireins koma til mín. Söngur: Sesselja Ósk Friðjónsdóttir. Bassi, röddun: Friðjón Ingi Jóhannsson. Gítar: Árni Jóhann Óðinsson. Trommur, slagverk: Daníel Friðjónsson. Rafgítar, hljómborð, röddun: Brynleifur Hallsson. Rafgítar: Hlynur Guðmundsson. Sumarást Lag: Magnús Bjarni Helgason Texti: Jónbjörg Eyjólfsdóttir Lagið áður gefið út á "Fjörðurinn okkar" árið 2000, en Magnús Bjarni sá um útgáfu á þeim diski, og á heiður skilið fyrir það framtak. Þar voru gefin út 19 lög sem á einn eða annan hátt tengjast Borgarfirði eystra. Gefið út á þessum diski endurhljóðblandað og með viðbótar hljóðfæraleik. Þegar lóan kemur svífandi um sæinn, þegar sunnanþeyrinn strýkur mér um kinn vaknar þrá mín heit, og blíða, frjálsa blæinn læt ég bera kveðju heim í fjörðinn þinn. Því ég veit að yfir fjöllin blærinn flýgur og í faðmi sínum ber hann ennþá vor svo að upp úr jörðu ilmur bráðum stígur, það er ilmur lífs er þiðna vetrar spor. Þegar fríið hefst ég ferðum til þín hraða, yfir fjöll og heiðar svíf á skammri stund, því að minningarnar lokka mig og laða á hinn lengi þráða góðra vina fund. Er ég hitti þig á ný þá er hvergi á lofti ský og ég horfi sæll í björtu augun þín. Ég á "sjensinn" sveifla mér og þar svíf í dans með þér, þú ert sumarást og hjartans vina mín. Þegar fríi lýkur brátt ég hverf til baka, en í brjósti mínu lifir von um það að þú ótal nætur viljir með mér vaka kæra vina mín, á þessum sama stað. Söngur, bassi: Friðjón Ingi Jóhannsson. Gítar: Árni Jóhann Óðinsson. Trommur: Daníel Friðjónsson. Hljómborð: Davíð Þór Jónsson. Saxófónn: Einar Bragi Bragason. Ákall Lag: Ralph Siegel Texti: Jónbjörg Eyjólfsdóttir Þetta gamla Eurovision friðarlag er hér látið fylgja með en það var áður gefið út á "Fjörðurinn okkar" árið 2000. Þessi texti Jónbjargar Eyjólfsdóttur frá Borgarfirði eystra, er orðinn vel þekktur um allt land m.a.verið sunginn af kórum og fleiri aðilum. Vinur minn hvar sem í heiminum er heyrðu mitt ákall og liðsinntu mér reynum að uppræta angur og kvöl afnema stríðsins böl. Stöndum við saman og störfum sem eitt stefnunni ef til vill getum við breytt, smíðum úr vopnunum verkfæri þörf verum í huga djörf. Burt með hræðslu sem byrgð er inni, burt með hatrið úr veröldinni, burt með sprengjur sem brenna svörð, biddu með mér um frið á jörð. Burt með hungur og burt með sorgir, burt með deilur og hrundar borgir, burt með sprengjur sem brenna svörð, biddu með mér um frið á jörð. Berum upp alls staðar bænina um frið, bænina stærstu sem nú þekkjum við, bænina einu sem bjargað nú fær barninu frá í gær. Burt með hræðslu o,s,frv, Frið á jörð, já frið á jörð, frið á jörð, já frið á jörð. Söngur: Friðjón Ingi Jóhannsson. Raddir: Aðalheiður Borgþórsdóttir. Gítar: Árni Jóhann Óðinsson. Útsetning og annar hljóðfæraleikur: Einar Bragi Bragason. Grænkandi dalur Lag: Anna G. Helgadóttir Texti: Sveinn Bjarman þýddi á íslensku Anna G. Helgadóttir frá Borgarfirði eystra semur þetta lag við hinn þekkta texta Sveins Bjarman. Anna var um tíma organisti við Bakkagerðiskirkju. Eftir hana hefur varðveist nokkuð af lögum. Hún lést árið 1988. Lagið var gefið út á "Fjörðurinn okkar" árið 2000 Grænkandi dalur góði, gleði mín býr hjá þér. Þar á ég það í sjóði sem þekkast flestum er. Blæs mér um vanga blærinn þinn, blessaður æskuvinurinn. Grænkandi dalur góði, gleði mín býr hjá þér. Við skulum sitja saman, syngdu mér lögin þín. Guð minn, hve nú er gaman ! Glampandi sólin skín. Vina mín kæra, veistu hvað ? Vorið er okkar, munum það. Við skulum sitja saman, syngdu mér lögin þín. Grænkandi dalur góði, gróanda lífsins skjól, vafinn í vorsins ljóði, vermdur af kveldsins sól. Brosir við óttu aftanblær, angandi gróður döggin þvær. Grænkandi dalur góði, gróanda lífsins skjól. Söngur, bassi: Friðjón Ingi Jóhannsson. Gítar: Árni Jóhann Óðinsson. Trommur: Daníel Friðjónsson. Harmoníka: Ágúst Ármann Þorláksson. Írsk flauta: Einar Bragi Bragason. Héraðsrúmban Lag: Óþekktur höfundur Texti: Sigurður Óskar Pálsson Í minningu Magnúsar Þorsteinssonar frá Húsavík, er gladdist flestum Borgfirðingum betur við söng og dans og gaf laginu þetta nafn, og Jón Bjarnason harmoníkuleikari spilaði gjarnan á dansiböllum á Borgarfirði eystra. Sigurður Óskar Pálsson fyrrverandi kennari og skólastjóri frá Borgarfirði eystra (fæddur í Breiðuvík) ,hefur verið afkastamikill í skrifum, bæði á bundið og óbundið mál. Eftir hann hefur m.a. komið út ljóðabókin "Austan um land", sem gefin var út af Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi árið 2001. Lagið var áður gefið út með hljómsveitinni á "Fjörðurinn okkar" árið 2000 Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar Hljómborð: Davíð Þór Jónsson. Flautur: Einar Bragi Bragason. Burstar: Karl Petersen. Létt við stjarnanna skin og við norðurljósalog þetta ljóð vil ég syngja í kveld. Nú er vetur um jörð, byltist brim um sker og vog, bera grundirnar mjallhvítan feld. Syng ég sorg úr barmi, sumargleði inn, varpa hljóðum harmi, hýrnar svipur minn. Létt við stjarnanna skin og við norðurljósalog lífsins gleði ég fagna í kveld. Löngum minnist ég þess hversu undra ákaft fjör áður hérna í skólanum var. Borgfirsk dansmannasveit var á sporin ekki spör er hún spriklaði á gólfinu þar. Margir milli dansa menn sér flýttu út, drjúgum dauða og "lansa" drukku þar af stút. Síðan aftur í dansi með sviptingar og sving sveitin brunaði hring eftir hring. Atlavíkurminni Lag: Björn Pálsson. Texti: Jónbjörg Eyjólfsdóttir .Lagið er samið af Birni Pálssyni vélstjóra og sjómanni á Stöðvarfirði árið 1994. Björn hefur í gegnum tíðina samið fjölda dægurlaga og sönglaga. Jónbjörg Eyjólfsdóttir frá Borgarfirði eystra var síðan fengin til að gera texta við lagið, en þar er vísað til "fornrar frægðar" Atlavíkur sem samkomustaðar, með tilheyrandi rómantísku ívafi. Lagið var áður gefið út með hljómsveitinni á "Fjörðurinn okkar" árið 2000, en er hér endurunnið að hluta til. Hlýddu með mér á lagið ljúfa það sem leikið var þessi kvöld, þegar sólmánaðar seiðandi dýrð í sálunum hafði völd, er við dillandi dragspils óma slógu draumlyndu hjörtun ótt marga hlýja, fagra, höfuga sumarnótt. Þá með lífsþrá í ungum augum steig hér æskan sinn létta dans og svo örlynd og dreymin,- dálítið feimin dreymd' um sinn fyrsta sjans. Þegar spilað var lagið ljúfa stundum laumaðist kinn að kinn, þarna fann mörg dísin draumaprinsinn sinn. Og í skógarins friðarfaðmi, þar sem fegurð og yndi býr bæði laut og bali lokkandi buðu ljúfustu ævintýr. Þá var hvíslað í eitthvert eyra: "Komdu elskan, og fylgdu mér, ég vil dvelja þessa draumfögru nótt með þér". Já - með lífsþrá í ungum augum o.s.frv Ennþá hljómar það, lagið ljúfa, sem hér leikið var marga nótt og þar enn má finna örlítið blik af æskunni er leið svo fljótt. Aftur lifnar í gömlum glæðum, sem er gaman að blása í, gömul ævintýri upprifja má á ný, er með lífsþrá í ungum augum steig hér æskan sinn létta dans, og svo örlynd og dreymin, dálítið feimin dreymdi um sinn fyrsta sjans. Inn í skógarins leynilundi stundum laumast þá hugurinn því þar fann mörg dísin draumaprinsinn sinn. Söngur,bassi: Friðjón Ingi Jóhannsson. Gítar: Árni Jóhann Óðinsson. Trommur: Daníel Friðjónsson. Hljómborð: Davíð Þór Jónsson. Saxófónn: Einar Bragi Bragason. Dansinn Lag: Daníel Friðjónsson Texti: Jónbjörg Eyjólfsdóttir Hér er á ferðinni yngsti lagahöfundurinn á útgáfunni, en það er trommuleikari hljómsveitarinnar. Daníel þurfti ekki að leita langt eftir texta, því amma hans Jónbjörg Eyjólfsdóttir, gerði þennan "dansandi" texta við lagið. Lagið kom upphaflega út á Austfirskum staksteinum árið 2003 Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar. Gestahljófæraleikur og söngur: Söngur: Jóhanna Seljan Þóroddsdóttir. Gítar: Brynleifur Hallsson. Hljómborð: Davíð Þór Jónsson. Saxófónn: Einar Bragi Bragason. Komdu vina, komdu með mér, kvöldið fagurt er. Komdu, nú er ég í stuði til að skemmta mér. Fiðringur er fótum í, fjörið vex nú ótt, komdu vina, komdu að dansa í nótt. Tjúttum svo og tvistum, til í hvað sem er, ballið er að byrja, flýttu þér. Augnabliksins njótum, allt er ævintýr, yfir töfrum dansins veröld býr. Komdu vina, komdu með mér, kvöldið líður fljótt. Könnum lífsins ævintýr og dönsum glatt í nótt. Gáski þér í augum býr, glettið bros á vör, göngum við í dansinn heit og ör. Rómantíkin lifnar, líður ballið á, hægt að vanga halla ég mér þá. Lokalagið kæra, ætlað tveim og tveim, okkur fylgir er við göngum heim. Komdu vina, komdu með mér, kvöldið fagurt er. Komdu nú er ég í stuði til að skemmta mér. Fiðringur er fótum í, fjörið vex nú ótt. Komdu vina, komdu að dansa í nótt. Ljósbrot Lag: Þorlákur Friðriksson Texti: Helgi Seljan Þorlákur Friðriksson bóndi á Skorrastað í Norðfjarðarsveit semur lagið 1999. Hann á í fórum sínum fjölda frumsaminna laga. Þorlákur er þekktur fyrir að fara á kostum á samkomum sem gamanvísnasöngvari, veislu og fjöldasöngsstjórnandi. Helgi Seljan bróðir Þorláks, fyrrverandi kennari og alþingismaður Austurlands, er vel þekktur fyrir texta sína og ljóðagerð, einnig hefur gjarnan komið í hans hlut veislustjórn og gamanvísnasöngur á samkomum. Lagið kom út með hljómsveitinni á Austfirskum staksteinum 2 . árið 2003 Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar. Gestahljóðfæraleikarar: Harmoníka, hljómborð: Ágúst Ármann Þorláksson. Gítar: Brynleifur Hallsson. Slagverk: Karl Petersen. Seiðandi danslagið syngur þýðan óð er saman við göngum á leið. Ljúfir berast tónar er við leiðumst þekkta slóð, laða fram töfrandi seið. Angan frá moldu og ilmur fer úr skóg, yndisleg vorgolan hlý. Færist yfir húmblæjur í hljóðri aftanró heiðblámi vestrinu í. Vorið ríkir, vonir rætast, varirnar í kossi mætast. Óðar hjörtun ungu kætast enn á ný. Raddir vorsins áfram óma, augu þín af kærleik ljóma, armlög þín undurhlý. Minningin geymist þó árin líði ótt, umvefur hug minn í kvöld. Lagið okkar seiðandi, ljúft og undurhljótt lokkar og tekur öll völd. Dísin mín góða hún draumsýn engin var, dögunum eyddi hjá mér. Henni mun ég fylgja glaður allt til eilífðar unun í fylgd hennar er. Áfram þó að árin renni unna mun ég sífellt henni. Sæll ég hennar kossa kenni, kærleikans glóð. Vorsins raddir ennþá óma, ætíð bera töfrahljóma, verma okkur vinan góð. Nú kemur vorið ( Frumútgáfa lagsins: Á bátadekkinu)Lag: Birni Dam, færeyskt lag Texti: Sigurður Ó. Pálsson Raddsetning: Daníel Friðjónsson Þennan texta kalla sumir "þjóðsöng" Borgfirðinga eystri. Sigurður Óskar Pálsson semur þennan texta á sjöunda áratugnum og er þetta mikið sungið þar sem Borgfirðingar syngja saman bæði heima og heiman. Það er "Eldhúskórinn á Skriðubóli" sem flytur hér lagið , en þar er í fararbroddi Jónbjörg Eyjólfsdóttir kona Sigurðar, ásamt öllum þeirra 7 börnum, nokkrum tengdabörnum og slatta af barnabörnum. Nú kemur vorið sunnan að og sólin bræðir ís, við sendna strönd í fjarðarbotni lítil alda rís og hvíslar: Það er langt síðan ég lagði af stað til þín. Nú loks ég finn að komin er ég, komin heim til mín. Úr draumi frá í vetur enn ég þekki þessa strönd. Nei, þannig fengu ei heillað suðræn ævintýralönd. Ó, strönd míns lands, mig dreymdi að ég deyja ætti hér. Minn draumur rætist því nú hníg ég ein að brjósti þér. Söngur: "Eldhúskórinn á Skriðubóli" Jónbjörg Eyjólfsdóttir, Anna Sigurðardóttir, Hannes Sigurðsson, Páll Sigurðsson, Sesselja Sigurðardóttir, Sigríður Sigurðardóttir, Sigþrúður Sigurðardóttir, Þuríður Sigurðardóttir. Tengdabörn: Davíð Jens Hallgrímsson, Friðjón Ingi Jóhannsson ,Sigrún Bjarnadóttir,Víkingur Daníelsson, Þórarinn Ragnarsson .Barnabörn: Daníel Friðjónsson, Eyrún Anna Davíðsdóttir, Ingibjörg María Þórarinsdóttir, Margrét Víkingsdóttir, Margrét Ragna Þórarinsdóttir, Sesselja Ósk Friðjónsdóttir, Stefanía Björg Víkingsdóttir. Bassi: Friðjón Ingi Jóhannsson. Gítar: Árni Jóhann Óðinsson. Trommur, slagverk, klarínettur: Daníel Friðjónsson. Orgel: Davíð Þór Jónsson. Slagverk: Karl Petersen. Draumaveröld Lag: Þorlákur Friðriksson Texti: Helgi Seljan Hér kemur annað lag og texti eftir þá bræður, Þorlák Friðriksson og Helga Seljan. Sjá umfjöllun um "Ljósbrot" fyrr á diskinum. Lagið hlaut 1. verðlaun í lagakeppni H.F.H. árið 1993. Feginn vildi ég komast til þín hvar sem það nú er koss af mjúkum vörum glaður þiggja. Himnasælu finna enn í faðminum hjá þér, frið og ró í sálu minni tryggja. Draumaveröld fagra vil ég eiga ástin mín, einn með þér svo fjarri heimsins glaumi. Innst í húmsins veröld merlar ætíð myndin þín, máist ei í tímans þunga straumi. Svona læt ég hugann reika og trega liðna tíð, tendra eld í lúnu, döpru hjarta. Eitt er víst að minningin er ennþá björt og þýð, unaðskennd hún veitir töfrabjarta. Helgi Seljan hefur einnig gert annan texta við þetta sama lag. Fylgir hann hér einnig með, enda höfundi kærari að eigin sögn, en hinn textinn mun þó vera þekktari við þetta lag. Kyrrðin Kyrrðin djúpa færir mínu hjarta frið og ró, fjarri byggð er löngum gott að una. Lágnættisins dularseiður löngum til sín dró, ljúft er það að rifja upp og muna. Ungur sveinninn átti þarna dýra drauminn sinn, dásemd var að búa í þeim heimi. Ennþá töfrar lyngs og lindar hrífa huga minn, heillaður ég flestu öðru gleymi. Þyngjast spor og árafjöldinn sífellt sækir á, seiður fjallakyrrðar ennþá brennur. Þangað vil ég leita þegar hinzta aldan há, hefst og kveðjustundin mikla rennur. Söngur, bassi: Friðjón Ingi Jóhannsson. Gítar: Árni Jóhann Óðinsson. Trommur, slagverk: Daníel Friðjónsson. Harmoníka, orgel: Ágúst Ármann Þorláksson. Trompet: Bjarni Freyr Ágústsson. Slagverk: Karl Petersen, Brynleifur Hallsson. Lífsganga Lag: Daníel Friðjónsson Texti: Sigríður Sigurðardóttir Þetta er fyrsta lag trommuleikara hljómsveitarinnar. Daníel hefur starfað í hljómsveitinni frá árinu 1995 . Hann er blásarakennari að mennt og starfar við tónlistarkennslu við tónlistarskóla Mosfellsbæjar og víðar. Daníel þurfti ekki að leita langt eftir texta við lagið, því hann er saminn af móður hans Sigríði Sigurðardóttur frá Borgarfirði eystra. Hún starfar sem þjónustufulltrúi í Landsbankanum á Akureyri, áður starfaði hún um árabil hjá Landsbankanum (áður Samvinnubankanum) á Egilsstöðum. Það er síðan faðirinn og eiginmaðurinn Friðjón Ingi Jóhannsson frá Finnsstöðum í Eiðaþinghá sem syngur lagið. Lagið kom upphaflega út á Austfriskum staksteinum 2 árið 2003 Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar. Gestahljóðfæraleikarar: Rafgítar: Brynleifur Hallsson. Hljómborð: Davíð Þór Jónsson. Rafgítar: Gunnar Ringsteð. Slagverk: Karl Petersen. Er við hittumst fyrst svo ung og óreynd vorum þá, ótrauð þá litum fram á lífsins veg. Framtíð okkar beið svo full af von og full af þrá við fundum ást, við áttum trú, og vildum vera saman. Svo lögðum við sigurviss út á lífsins braut stigum fyrstu sporin hönd í hönd. Örugg um að ástin ynni hverja þraut, við höfðum von og trú og vildum vera saman. Þó brautin okkar reyndist ekki alltaf bein og greið, birti ávallt upp, þó syrti að. Lífsgönguna saman þreytum, ávallt finnum leið, við eigum ást, við eigum trú, og viljum vera saman. Lítum nú saman yfir lífsins veg, lært við höfum af því sem miður fór. Brosum mót birtu dagsins, þú og ég enn eigum okkar ást og viljum vera saman. Fyrr og nú Lag: Bragi Gunnlaugsson Setbergi. Texti: Sólrún Eiríksdóttir frá Krossi. Lagið semur Bragi bóndi á Setbergi í Fellum árið 1952. Lög sín kallar hann gjarnan " Berglög", þar sem hann segist njóta ómældrar aðstoðar álfa og huldufólks við gerð laga sinna. Bragi á þó nokkuð af frumsömdum lögum. Textinn er eftir Sólrúnu Eiríksdóttir f.v. húsfreyju á Krossi í Fellum. Eftir hana liggur fjöldi ljóða, m.a. var gefin út ljóðabókin " Á Austurlandi leit ég sól", sem hefur að geyma kveðskap hennar, ásamt ljóðum eftir eiginmann hennar Sigfús Guttormsson. Sólrún lést árið 2000. Lagið kom áður út á Austfirskum staksteinum 2 árið 2003. Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar Orgel: Davíð Þór Jónsson. Tamborína: Karl Petersen. Manstu okkar fornu fögru kynni þá fögur ríkti sumarnóttin heið, við dönsuðum, þín dvaldi hönd í minni og dýrðleg var sú stund, en fljótt hún leið. Því dagur rann þá dansfólk burtu flytur, á döggvott grasið sólin geislum sló en síðan hefur komið kaldur vetur, þú kemur þegar vorið laufgar skóg. Mig dreymir um þig daga og langar nætur, í draumum mínum birtist myndin þín, því ástin festi órjúfandi rætur í okkar hjörtum kæra vina mín. Ég minnist þín í vöku og værum blundi, ég veit að hjá mér dvelur hugur þinn, þá rökkur-kyrrð er yfir sveit og sundi í sælum draum ég nálægð þína finn. Nú brosir lítill bær í hvammi grænum, á bakvið hann er fögur skógarhlíð, þrastarsöngvar óma í aftanblænum, undir niðar lindin mild og þýð. Á kvöldin þegar þrautin dags er unnin og þreyttur kem ég heim þú fagnar mér, og kæra mín ég kyssi þig á munninn, í kvöldsins friði bý ég sæll hjá þér. Flettingar í dag: 31 Gestir í dag: 13 Flettingar í gær: 10 Gestir í gær: 7 Samtals flettingar: 122998 Samtals gestir: 44425 Tölur uppfærðar: 2.3.2021 17:08:17 |
Tenglar |
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is